Monthly Archives

May 2003

Félagsbústaðir flytja að Hallveigarstíg 1

By | Fréttir
Á næstu dögum mun starfsemi Félagsbústaða flytja frá Suðurlandsbraut 30 að Hallveigarstíg 1, 3. og 4.hæð. Föstudaginn 23.maí verður skrifstofa og skiptiborð lokað vegna flutninganna, en sími fyrir bilanatilkynningar verður opinn sem fyrr. Gert er ráð fyrir að öllum flutningum verði lokið 28.maí. Undirbúningur flutninganna hefur staðið yfir í u.þ.b. 2 mánuði og verið unnið hörðum höndum að standsetningu nýrra höfuðstöðva. Húsið að Hallveigarstíg 1 hefur verið aðlagað starfseminni þannig að aðstaða starfsmanna Félagsbústaða verði sem best verður á kosið. Aðgengi viðskiptavina verður mjög gott og verður móttaka á 3.hæð hússins ásamt fjármála- og þjónustudeild, en framkvæmdadeild verður á 4.hæð.

Skúlagata 64-80

By | Fréttir
Um þessar mundir standa yfir umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir að Skúlagötu 64-80. Gert verður við allar steypuskemmdir og húsið endursteinað. Einangrun í þaki verður endurnýjuð og skipt um þakpappa og járn í þakinu öllu. Nýjar svalahurðir og hliðargluggar verða settar í allar íbúðir. Skipt verður um ónýtt tvöfalt gler í húsinu og einnig verður skipt út einföldu gleri í stigahúsum á norðurhlið ásamt hringgluggum á baðherbergjum og þakgluggum á norðurhlið. Austurgafl hússins verður einangraður og múrhúðaður. Gert verður við allt tréverk og það síðan málað. Verkið var boðið út í desember sl. og er gert ráð fyrir að heildarkostnaður verði um 70 milljónir. Verktaki er Þórsafl efh. og er miðað við að verkinu ljúki 1.október nk.

Hringbraut 121

By | Fréttir

Í júlí nk. verður lokið við smíði 12 íbúða fyrir eldri borgara í bakhúsinu að Hringbraut 121 (bak við Nóatúnsbúðina). Þarna var á árum áður til húsa vikurplötuframleiðsla á vegum Jóns Loftssonar hf. en nú hefur húsið sem sé fengið nýtt hlutverk. Íbúðirnar eru allar tveggja herbergja 55-60 m² að stærð auk sameignar og á hluta þaksins verður aðstaða fyrir útiveru íbúa.

Það er Borgarafl efh. sem annast framkvæmd verksins. Ljóst er að þegar þetta hús er fullfrágengið verður það talsverð andlitslyfting fyrir umhverfið og enn á ásýnd þessa svæðis eftir að batna þegar Lýsi hf. flytur þaðan starfsemi sína.

Umhverfismál

By | Fréttir

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að mótun umhverfisstefnu fyrir Félagsbústaði. Stefán Gíslason hjá Environice sem er sérfróður á sviði umhverfisstjórnunar hefur verið ráðgjafi Félagsbústaða við þetta verk.

Í vinnuferlinu hefur verið fundað með starfsmönnum og haldnir fræðslufundir fyrir starfsmenn og ýmsa verktaka sem vinna fyrir Félagsbústaði. Umhverfisstefnan liggur nú fyrir í endanlegri mynd og eru birt í heild hér á heimasíðu Félagsbústaða.

Það eru æði mörg og fjölbreytt viðfangsefni sem hafa þarf í huga við framkvæmd umhverfisstefnu hjá fyrirtæki á borð við Félagsbústaði. Til að hægt sé að fylgjast með því sem til framfara horfir hjá fyrirtækinu á þessu sviði verður fært það sem kallað er grænt bókhald, en það er skipuleg skráning á þeim árangri sem næst á ári hverju. Slíkt bókhald verður svo hluti af hefðbundnu ársuppgjöri Félagsbústaða.

Það er von Félagsbústaða að sú stefna sem félagið hefur nú markað sér á sviði umhverfismála eigi eftir að skila sér í bættu umhverfi og betri umgengni í fasteignum félagsins.