Monthly Archives

August 2003

Öryggismál hjá Félagsbústöðum

By | Fréttir
Til að hamla gegn spjöllum á sameign og til að auka öryggi íbúa hússins hefur verið tekin upp rafræn vöktun með sjálfvirkri myndbandsupptökuvél á nokkrum stöðum í húseignum Félagsbústaða. Stendur til að fjölga slíkum vélum í fleiri húseignum ef þess gerist þörf. Með upptökur verður farið sem trúnaðarmál og þeim verður eytt strax og þeirra er ekki lengur þörf í öryggis- og eignavörsluskyni. Upptökur verða ekki afhentar neinum nema lögreglu í upplýsinga- og rannsóknarskyni og til framlagningar í dómsmáli. Vöktun þessi byggir á heimild í 2.mgr. 9.gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þessar aðgerðir leiða vonandi til betri umgengni í framtíðinni og vistvænna umhverfis í húseignum Félagsbústaða.

Brunavarnir að Meistaravöllum 19-29

By | Fréttir

Fyrr í sumar lauk framkvæmdum við úrbætur á brunavörnum í stigahúsum að Meistarvöllum 19-29. Er þetta gert í samræmi við stefnu Félagsbústaða hf um auknar öryggiskröfur í húsum sínum og unnið út frá skýrslu Línuhönnunar hf um Úrbætur brunavarna – í fjölbýlishúsum Félagsbústaða hf frá október 2002.

Í fyrsta áfanga verksins var m.a. fjölgað opnanlegum gluggum í stigahúsi, rör í þaki einangruð, lagnaloft í kjallara gipsklædd, brunaeinangrað kringum sorprennur ofl. Það var Skjólverk efh. sem annaðist framkvæmd verksins og gekk samstarfið vel.

Félagsbústaðir þakka skilning og þolinmæði íbúa vegna framkvæmdanna enda verkið í unnið í þágu beggja aðila. Félagsbústaðir hafa haft frumkvæði að því að bæta brunavarnir í húsum sínum á síðustu árum. Nú þegar hafa miklar endurbætur verið gerðar í Írabakka 2-12 og Austurbrún 6 svo dæmi séu tekin.

Stefna Félagsbústaða er að gera enn meira og betur á komandi árum, vera til fyrirmyndar í brunavörnum og uppfylla nútíma kröfur um öryggi.

Framkvæmdum lýkur við Hringbraut 121

By | Fréttir
Nú er að ljúka smíði 12 íbúða í bakhúsinu að Hringbraut 121 (bak við Nóatúnsbúðina) og er gert ráð fyrir að fyrstu íbúarnir flytji inn í byrjun september. Þarna var á árum áður til húsa vikurplötuframleiðsla á vegum Jóns Loftssonar hf. en nú hefur húsið sem sé fengið nýtt hlutverk. Íbúðirnar eru allar tveggja herbergja 55-60 m² að stærð auk sameignar og á hluta þaksins verður aðstaða fyrir útiveru íbúa. Það er Borgarafl efh. sem annast framkvæmd verksins. Ljóst er að þegar þetta hús er fullfrágengið verður það talsverð andlitslyfting fyrir umhverfið og enn á ásýnd þessa svæðis eftir að batna þegar Lýsi hf. flytur þaðan starfsemi sína.

Skúlagata 64-80

By | Fréttir
Viðhaldsframkvæmdir að Skúlagötu 64-80 ganga samkvæmt áætlun. Húsið hefur nú þegar tekið miklum stakkaskiptum og mun verða enn glæsilegra þegar verkinu lýkur þann 1.október nk. Búið er að endursteina húsið að hluta og áhugavert að sjá muninn fyrir og eftir aðgerðir. Aðrir verkþættir svo sem vinna við þak, tvöföldun á gleri og einangrun er vel á veg komin. Samstarf við íbúa hefur almennt gengið mjög vel og kunna Félagsbústaðir þeim bestu þakkir og vonast eftir áframhaldandi velvild til loka verksins.