Monthly Archives

February 2004

Tvö fjölbýlishús keypt

By | Fréttir
Nýlega var gengið frá kaupum Félagsbústaða á tveimur fjölbýlishúsum í eigu Reykjarvíkurborgar, Furugerði 1 og Lönguhlíð 3. Í húsunum hafa verið reknar þjónustuíbúðir fyrir aldraða og helst sú starfsemi óbreytt. Sú þjónustustarfsemi sem nú er til staðar í þessum húsum verður áfram í höndum Reykjarvíkurborgar. Furugerði 1: 70 íbúðir á 8 hæðum. Byggt árið 1977. Langahlíð 3: 33 íbúðir á 2 hæðum. Byggt árið 1978.

Bjarnarborgin keypt

By | Fréttir
Í desember s.l. var gengið frá kaupum Félagsbústaða á hinu fornfræga húsi Bjarnarborg að Hverfisgötu 83. Bjarnarborg var reist 1902 og var þá stærsta íbúðarhús landsins og jafnframt fyrsta fjölbýlishúsið. Í húsinu hafa nær alla tíð verið reknar leiguíbúðir og oft var þar þétt setinn bekkurinn en hámarki náði íbúafjöldinn árið 1917 en þá bjuggu þar 168 manns. Borgarstjórn friðaði húsið árið 1978 í B-flokk samkvæmt þjóðminjalögum. Nú eru í húsinu 15 íbúðir og er þessa dagana unnið hörðum höndum að standsetningu og endurbótum. Gert er ráð fyrir að nýir íbúar flytji inn í húsið um miðjan febrúar n.k.

Verklok að Skúlagötu 64-80

By | Fréttir
Í nóvember sl. lauk umfangsmiklum viðhaldsframkvæmdum að Skúlagötu 64-80. Fólust þær m.a. í viðgerðum á steypuskemmdum og endursteinun, þakviðgerðum, nýjum svalahurðum og gluggum, viðgerð og málun á tréverki svo eitthvað sé nefnt. Húsið hefur tekið miklum stakkaskiptum og sjaldan verið glæsilegra, en það var byggt árið 1947 og ber aldurinn einkar vel. Ýmsum verkþáttum var bætt við það sem gert hafði verið ráð fyrir í útboði og má þar t.d. nefna að skipt var um allt þakjárn og settir nýir þakgluggar, gluggaskipti voru aukin ásamt ýmsum öðrum smærri viðhaldsþáttum. Allar þessar framkvæmdir voru innan þess tíma- og kostnaðarramma sem settur var. Félagsbústaðir vilja koma á framfæri kærum þökkum til leigjenda fyrir gott samstarf og velvilja á meðan á þessum framkvæmdum stóð og einnig ber að þakka verktaka verksins, Þórsafli ehf., fyrir vel unnin störf.

Hjólageymslur

By | Fréttir
Nú í ár verður gert átak til að bæta umgengni um hjóla- og vagnageymslur í sameign. Starfsmenn Félagsbústaða munu koma á auglýstum tíma og fjarlægja öll ómerkt hjól og verða geymslurnar þrifnar og málaðar. Einnig er stefnt að því að koma fyrir hjólagrindum til að auðvelda þrif og til hæginda fyrir hjólreiðaeigendur. Þá minnum við leigjendur á að það er brot á húsreglum og stranglega bannað að geyma dót eða drasl á göngum í sameign og má búast við að það verði fjarlægt fyrirvaralaust.

Framkvæmdaáætlun 2004

By | Fréttir
Af einstökum verkefnum verða langmestu framkvæmdirnar að Jórufelli 2-12. Þar hefur verið ákveðið að loka svölum, gera við múrskemmdir og mála húsið. Þetta verk hefur nú þegar verið boðið út og verða tilboð opnuð 12. febrúar n.k. Einnig verður skipt um alla glugga á norðurhlið hússins og er sú vinna þegar hafin og á að vera lokið 1. mars n.k. Kostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður um 90 milljónir króna. Af öðrum framkvæmdum má nefna að aukin áhersla verður lögð á lagfæringar í íbúðum sem eru í búsetu, áfram verður unnið að brunavörnum og fjölmörgum öðrum smærri verkefnum. Heildarviðhaldskostnaður á árinu 2004 er áætlaður yfir 400 milljónir króna.