Monthly Archives

October 2004

Bjarnaborgin endurbætt

By | Fréttir
Utanhúsviðgerðir á Bjarnaborg hafa staðið yfir í allt sumar og verður þeim haldið áfram eins og aðstæður leyfa nú í vetur. Gert er ráð fyrir að öllum helstu viðgerðum verði lokið á þessu ári en næsta vor verði lokið við lagfæringar á lóð og húsið málað í sem næst upprunalegum lit. Til að tryggja sem bestan árangur þessara framkvæmda var ákveðið að kaupa allt timbur, sem notað verður í endurnýjun svalaganga, beint frá Finnlandi vegna þess að ekki er alltaf auðvelt að fá timbur í hæsta gæðaflokki hér á landi. Ekki verður um umtalsverðan aukakostnað að ræða vegna þessa. Félagsbústaðir leggja mikla áherslu á að endurbætur á þessu sögufræga og glæsilega húsi megi takast sem allra best

Heimsókn frá Danmörku

By | Fréttir
Í byrjun október fengu Félagsbústaðir góða gesti í heimsókn frá Danmörku. Var þar um að ræða 31 starfsmenn og aðra fulltrúa frá húsnæðisfélaginu KAB / Herlev Boligselskab í Kaupmannahöfn. Hópurinn var í náms- og kynnisferð hér á Íslandi og óskaði sérstaklega eftir að fá að hitta starfsfélaga sína hjá Félagsbústöðum til að kynna sér starfsemina og miðla af eigin reynslu. Þessi heimsókn var afar ánægjuleg og tókst í alla staði vel. Félagsbústaðir gerðu grein fyrir starfseminni hjá félaginu og talsverðar umræður urðu um ýmis sameiginleg viðfangsefni og hagsmunamál. Farið var í skoðunarferð um Reykjavík og gestunum voru m.a. sýnd nokkur af fjölbýlishúsum Félagsbústaða. Síðan var farið til Nesjavalla og orkuverið þar skoðað í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Danirnir létu í ljósi sérstakt þakklæti fyrir móttökurnar og óhætt er að fullyrða að þessi heimsókn hafi verið bæði fróðleg og ánægjuleg fyrir báða aðila.

Öldin okkar

By | Fréttir
Nú styttist í að lokið verði vinnu við endurbætur og breytingar á Njálsgötu 65 sem áður gekk undir nafninu Hótel Öld. Húsið er 527 m² og byggt árið 1930. Verið er að útbúa 16 litlar einstaklingsíbúðir í húsnæði þar sem áður var rekið gistiheimili um árabil. Þetta er í fyrsta skipti sem Félagsbústaðir breyta slíku húsnæði í íbúðir og ýmsar hindranir hefur þurft að yfirstíga á framkvæmdatímanum, en nú er allt slíkt að baki. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði að fullu lokið í nóvember þannig að væntanlegir íbúar geti flutt inn fyrir næstu jól.

Heimasíða endurbætt

By | Fréttir
Í sumar var unnið mikið verk í að breyta og bæta heimasíðu Félagsbústaða. Síðan hefur fengið mikla andlitslyftingu ásamt ýmsum nýjum viðbótum sem ættu að auka og bæta þjónustu við leigjendur sem aðra. Af helstu nýjungum má nefna myndir af fjölbýlishúsum Félagsbústaða og húsráð gegn rakaskemmdum. Einnig er komin ensk útgáfa af heimasíðunni þar sem helstu efnisatriði síðunnar hafa verið þýdd yfir á ensku.

Framkvæmdir að Jórufelli

By | Fréttir
Í sumar hafa staðið yfir framkvæmdir við gagngerar endurbætur á húsinu að Jórufelli 2-12. Búið er að mála húsið að utan að verulegu leiti. Nýjar inngangshurðir í íbúðir hafa verið settar upp og eru þær sérhannaðar til að standast nútímakröfur um eldvarnir og hljóðeinangrun. Vinna við lokun svala stendur nú yfir en gert er ráð fyrir að öllum þessum framkvæmdum verði lokið í byrjun nóvember. Á næsta ári verður vonandi hægt að halda áfram endurbótum, þ.e.a.s. við að lagfæra baklóðina og skipta um útihurðir á öllum aðalinngöngum. Félagsbústaðir þakka íbúum hússins fyrir þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt meðan á þessum framkvæmdum hefur staðið með öllu því raski sem þeim fylgir.

Metár í standsetningum

By | Fréttir
Það sem af er þessu ári hefur verið óvanalega mikið að gera í standsetningu íbúða og á það jafnt við um íbúaskipti, standsetningu nýrra íbúða sem keyptar hafa verið og íbúðir í búsetu. Í byrjun október hefur verið lokið við standsetningu um 300 íbúða á þessu ári sem er meira en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma á síðasta ári var samsvarandi fjöldi um 200 íbúðir. Þessi mikli fjöldi íbúða sem nú þegar er búið að standsetja samsvarar því að lokið sé við að standsetja um 1,8 íbúð á dag á hverjum einasta virkum degi það sem af er þessu ári.