Monthly Archives

February 2005

Síðasta kaupleiguíbúðin í Reykjavík

By | Fréttir
Árið 1990 lagði þáverandi félagsmálaráðaherra fram tillögur á Alþingi um kaup og byggingar á kaupleiguíbúðum. Tillögurnar voru samþykktar og í Reykjavík voru byggðar 208 íbúðir. Íbúðirnar áttu helst að þjóna þeim sem voru of tekjuháir í félagslegar leiguíbúðir en höfðu lent í tímabundnum erfiðleikum t.d. gjaldþroti sem hægt væri að vinna sig út úr eða uppáskriftum lána sem féllu á viðkomandi. Þannig mátti ekki veðsetja eða gera fjárnám í kaupleiguíbúðum. Húsnæðisnefnd Reykjavíkur hafði með úthlutun og sölu á íbúðunum að gera en Félagsbústaðir tóku við afgreiðslu og rekstri þeirra þegar húsnæðisnefndin var lögð niður árið 2001. Samningar um kaupleiguíbúðir í Reykjavík voru gerðir til 5 ára. Að þeim tíma loknum átti að vera orðið ljóst hvort viðkomandi óskaði eftir kaupum á íbúðinni eins og um félagslega eignaríbúð væri að ræða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eða að leigja íbúðina af Félagsbústöðum og afsala sér kaupréttinum. Nokkrir aðilar fengu framlengdan kaupleiguíbúðar-samning vegna sérstakra aðstæðna og var því afgreiðslu á síðustu kaupleigu-íbúðinni í Reykjavík ekki lokið fyrr en í s.l. desembermánuði. Um 47 % kusu að kaupa íbúðirnar en um 35 % að leigja þær. Aðrir sögðu þeim upp og leystu sín húsnæðismál öðruvísi. Þegar upp er staðið er ljóst að kaupleiguíbúðirnar í Reykjavík hafa á þessum tíma hjálpað mörgum sem áttu óhægt um vik á frjálsum húsnæðis-markaði og hafi þannig þjónað sínum tilgangi.

Jórufell 2-12

By | Fréttir
Nú er nýlega lokið framkvæmdum við lokun svala, klæðningu og aðrar endurbætur utanhúss að Jórufelli 2-12. Þá hafa einnig verið settar nýjar inngangs-hurðir í allar íbúðir. Í sumar verður framkvæmdum haldið áfram og verður þá baklóðin öll endurgerð og skipt verður um allar aðalinngangshurðir.

Tvö ný fjölbýlishús

By | Fréttir
Á þessu ári hefjast framkvæmdir við smíði tveggja nýrra fjölbýlishúsa fyrir Félagsbústaði. Að Þorláksgeisla 9, Grafarholti, verða byggðar 20 íbúðir tveggja, þriggja og fjögurra herbergja. Gert er ráð fyrir að húsið verði fullbúið í mars 2006. Að Hólmvaði 24-36, Norðlingaholti, verða reystar 18 íbúðir tveggja til fimm herbergja. Áætlað er að framkvæmdir þar verði lokið í lok þessa árs.

Grænt bókhald

By | Fréttir
Í samræmi við umhverfisstefnu sína hafa Félagsbústaðir ákveðið að færa svokallað “grænt bókhald” yfir starfsemina. Fyrirtækið hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að vernda umhverfið og vill vera í fararbroddi íslenskra fyrirtækja hvað það varðar. Skýrsla fyrir árið 2004 verður tilbúin á vormánuðum og verður aðgengileg á heimasíðu Félagsbústaða. Nánar verður fjallað um þetta í næsta fréttabréfi.

Framkvæmdaáætlun 2005

By | Fréttir

Áætlun um viðhaldsframkvæmdir þessa árs liggur nú fyrir. Helstu verkefnin sem ráðist verður í eru: 

  • Meistaravellir 19-23: Miklar endur-bætur á anddyrum, stéttum, lóð o.fl. Húsið verður allt málað.
  • Unufell 44-46: Lokun svala, múrviðgerðir, klæðning, málun o.fl. 
  • Skúlagata 64-80: Stigagangar verða málaðir, skipt verður um allar hurðir að íbúðum o.fl.
  • Furugerði 1: Málun utanhúss, viðgerðir á þaki, endurbætur á hita- og loftræstikerfi ofl.
  • Langahlíð 3: Endurbætur á hita- og loftræstikerfi o.fl.
  • Endurgerð lóða: Haldið verður áfram endurgerð lóða og bílastæða og er gert ráð fyrir að þær framkvæmdir verði langt komnar á þessu ári.
  • Lekaviðgerðir, klæðning o.fl. 
  • Hjólageymslur: Gert verður átak í endurbótum og tiltektum í hjóla- og vagnageymslum.
  • Öryggismál: Unnið verður mark-visst áfram að endurbótum á brunavörnum.

Bætt verður við öryggismyndavélum á ýmsum stöðum. Lýsing við aðalinnganga verður bætt. Þetta eru stærstu viðhaldsverkefnin en auk þeirra verður unnið við fjölmörg smærri verkefni sem of langt mál er að telja upp hér í fréttabréfinu. Félagsbústaðir vonast eftir góðu samstarfi við íbúa meðan á þessum framkvæmdum stendur en óhjákvæmilegt er að þeim fylgi eitthvað rask og ónæði og er hér með beðist velvirðingar á því.

Nýtt fréttabréf komið út

By | Fréttir
Í vikunni kom út fyrsta fréttabréf ársins og kennir þar ýmissa grasa sem endranær. Meðal efnis eru verklok að Jórufelli 2-12, framkvæmdaáætlun ársins 2005, umfjöllun um síðustu kaupleiguíbúðina, bygging tveggja nýbygginga o.fl. Upplagið er nú 2000 eintök og hefur það aukist í takt við fjölgun íbúða og leigjenda Félagsbústaða. Fréttabréfinu er dreift til allra leigjenda og einnig er hægt að nálgast það hér á heimasíðunni í dálknum fréttayfirlit.

Að gefnu tilefni – Sigurður Kr. Friðriksson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf.

By | Fréttir
Í umræðuþáttum á Útvarpi Sögu undanfarna daga hafa komið fram fullyrðingar um fyrirhugaða hækkun á leigu íbúða í eigu Félagsbústaða hf. Þar er því haldið fram að hækkun fasteignamats um síðustu áramót leiði til allt að 20% hækkunar á húsaleigu um þessi mánðarmót. Innan Félagsbústaða hafa engar slíkar umræður átt sér stað og hefði þeim sem setti fram þessar fullyrðingar í umræðuþætti á Útvarpi Sögu fyrir síðustu helgi verið nær að kanna það hjá fyrirtækinu hvort slík hækkun stæði til í stað þess að fullyrða það á öldum ljósvakans. Það er mikill ábyrgðarhluti að koma með fullyrðingar um verulega hækkun á leigu í félagslegu húsnæði án þess að hafa fyrir því staðfestar upplýsingar frá fyrstu hendi. Enda voru viðbrögð leigjenda Félagsbústaða afar mikil á mánudagsmorgun áður en greiðsluseðlar vegna leigunnar bárust þeim í pósti síðar þann sama dag sem staðfestu óbreytta leigu. Ég gef mér ekki að slíkar fullyrðingar séu settar fram til þess að vekja ótta meðal leigjenda Félagsbústaða sem eru lágtekjufólk upp til hópa, öryrkjar og eldra fólk, sem berst í bökkum og munar um hverja krónu til þess að ná endum saman um hver mánaðarmót, heldur sé hér um að ræða fljótræði og misskilning. Sá misskilningur getur átt rætur sínar að rekja til þess að fyrir tveimur árum var útreikningi leigunnar breytt til þess að jafna leigu milli þeirra sem höfðu leigt hjá Félagsbústöðum um árabil og þeirra sem höfðu verið leigjendur um skamman tíma. Leiga þeirra síðarnefndu hafði hækkað samfara verulegri hækkun fasteignaverðs umfram almennt verðlag allt frá árinu 1999 en frá því ári hefur íbúðaeign Félagsbústaða tvöfaldast með kaupum íbúða á almennum markaði. Þessi þróun fasteignaverðs orsakaði umtalsvert misræmi á leiguverði sambærilegra íbúða í eigu fyrirtækisins allt eftir því á hvaða tíma þær voru keyptar. Til þess að leigjendur Félagsbústaða byggju við sambærileg og sanngjörn leigukjör var ákveðið að miða útreikning leigunnar við fasteignamat en matið hafði verið endurskoðað fyrir landið allt og tók gildi í september 2001 með árlegu endurmati . Þessi breyting jók ekki leigutekjur Félagsbústaða heldur jafnaði einungis leiguna innbyrðis milli leigjenda. Frá ársbyrjun 2004 hefur útreikningur leigu við upphaf leigutíma miðast við fasteignamat í árslok 2003 og tekur leigan síðan breytingum ársfjórðungslega í samræmi við neysluvísitölu og verður svo framvegis. Leiga hjá Félagsbústöðum kemur því ekki til með að hækka samfara síðustu hækkun fasteignamatsins um 20% eins og ranglega hefur verið fullyrt á Útvarpi Sögu.