Monthly Archives

August 2005

Sala fyrirhuguð á 20 íbúðum í Fellahverfi

By | Fréttir
Félagsbústaðir hf. hafa í hyggju að fækka leiguíbúðum í Fannarfelli en þar á félagið 60 íbúðir. Íbúðirnar voru byggðar árið 1973 sem hluti af átaki Framkvæmdanefndar byggingaáætlunar í tengslum við kjarasamninga um fjölgun félagslegra íbúða. Í Fellahverfi voru samtals byggðar 1250 íbúðir þar af 196 félagslegar leiguíbúðir í eigu Reykjavíkurborgar. Félagsbústaðir keyptu leiguíbúðirnar af Reykjavíkurborg þegar félagið var stofnað árið 1997 og hafa rekið þær síðan í samvinnu við Félagsþjónustuna í Reykjavík sem úthlutar íbúðum í eigu félagsins. Fyrirhugað er að selja allar íbúðirnar í tveimur stigahúsum, að Fannarfelli 2 og 4 og því verður nauðsynlegt að segja upp leigusamningi við leigjendur í þessum íbúðum í samræmi við lögbundinn uppsagnarfrest, en jafnframt verður þeim boðið til leigu sambærilegt húsnæði í eigu Félagsbústaða. Íbúar hafa verið boðaðir til upplýsingafundar varðandi söluna og verður hann haldinn mánudaginn 8.ágúst n.k. kl.18.00 í Danshöllinni, Drafnarfelli 2, þar sem salan verður kynnt nánar og fyrirspurnum íbúa svarað. Þá geta leigjendur á fundinum pantað viðtalstíma hjá Félagsbústöðum og Þjónustumiðstöð Breiðholts varðandi umsókn og nánari útfærslu á flutningi í annað húsnæði í eigu Félagsbústaða.