Monthly Archives

December 2005

Íbúðaráð í leiguíbúðum Félagsbústaða

By | Fréttir

Í starfsáætlun Félagsþjónustunnar fyrir árið 2004 var lagt til að samstarf við Félagsbústaði og aðra hagsmunaaðila um málefni leigjenda yrði aukið og þróað. Eitt af þeim markmiðum sem samstarfsaðilar settu sér var að stofnuð yrðu íbúaráð í nokkrum fjölbýlishúsum í eigu Félagsbústaða. Í framhaldi af þessu var settur á laggirnar undirbúningshópur sem tók að sér að skilgreina markmið og tilgang með stofnun íbúaráða. Hópurinn viðaði að sér efni m.a. frá nágrannalöndunum en þar er víða komin áratuga hefð á íbúðaráð leigjenda. Eftirfarandi leiðbeiningar lagði undirbúningshópurinn fyrir íbúðaráðin: • Fá ráðgjöf frá sérstökum starfsmönnum Félagsbústaða og Þjónustumiðstöðva. • Benda á og koma með tillögur um það sem betur mætti fara í sameign, á bílastæðum og á lóð hússins. • Hafa frumkvæði að haldnir verði húsfundir. • Stuðla að samkennd íbúanna gagnvart umhverfi sínu. • Stuðla að margvíslegum hagsmunamálum íbúanna. Fyrsta íbúaráðið var stofnað í nýju húsi að Þórðarsveig 1-5 en þar eru samtals 50 þjónustuíbúðir. Fljótlega var nafninu breytt í frístundaráð og hlutverk ráðsins þannig víkkað út. Í húsinu er blómleg félagsstarfsemi sem frístundaráðið kemur að. Næst var stofnað íbúaráð að Njálsgötu 65 en þar eru 16 litlar íbúðir sem allar hafa verið endurgerðar. Nýlega var svo stofnað íbúaráð að Hólmvaði 24-36. Nú þegar er komin góð reynsla af íbúaráðunum og á döfinni er að stofna fleiri. Félagsbústaðir munu halda áfram að hlúa að starfi þeirra með það að markmiði að íbúar geti haft áhrif á sitt nánasta umhverfi og að þannig verði hagsmunum þeirra betur borgið.

Hólmvað afhent

By | Fréttir
Í byrjun október s.l. tóku Félagsbústaðir í notkun nýtt og glæsilegt fjölbýlishús að Hólmvaði 24-36 í Norðlingaholti. Í húsinu eru 18 íbúðir 2.-5. herbergja að stærð og eru 14 af þessum íbúðum á tveimur hæðum, en ástæðan er ákvæði í skipulagsskilmálum svæðisins. Aðkoma að húsinu er mjög góð og er gerð bílastæða og frágangi lóðar lokið að fullu. Verktaki var Mótás hf. og tók framkvæmdin aðeins um 9 mánuði.

Jólin nálgast

By | Fréttir
Aðventa er nú gengin í garð og senn líður að jólum og áramótum. Á þessum hátíðlega tíma ársins vilja Félagsbústaðir koma fáeinum ábendingum á framfæri til leigjenda sinna. Í kringum jól og nýár myndast oft mikið sorp tengt jólahreingerningum, auglýsingabæklingum gjafapappír o.s.frv. og eru leigjendur beðnir að gæta þess að stífla ekki sorprennur með of miklu magni eða “lögun” sorpsins. Hátíð ljóssins fylgir einnig aukin kertanotkun, margvíslegar ljósaseríur og flugeldanotkun en í öllu þessu er ávallt fólgin aukin eldhætta. Leigjendur eru því hvattir til að fara gætilega með eld og rafmagn og að athuga hvort reykskynjarar séu virkir. Félagsbústaðir annast uppsetningu á reykskynjurum þar sem þá vantar sem og endurnýjun á þeim. Mikilvægt er einnig að eldteppi séu til staðar og aðgengileg. Að lokum ber að taka það fram að skrifstofa Félagsbústaða er opin á Þorláksmessu til kl.16 og alla virka daga á milli jóla og nýárs. Félagsbústaðir óska öllum sínum leigjendum og samstarfsaðilum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með þökk fyrir samstarfið á líðandi ári.

Gvendargeisli keyptur

By | Fréttir
Félagsbústaðir festu nýlega kaup á fjölbýlishúsinu að Gvendargeisla 21 í Grafarholti. Í húsinu eru 20 íbúðir 2.-4. herbergja og vandaðar að allri gerð. Húsið var byggt árið 2003 og hafa allar íbúðirnar verið leigðar út frá þeim tíma. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúarnir á vegum Félagsbústaða flytji inn í húsið fyrir áramót.

Sala íbúða í Fannarfelli

By | Fréttir
Tekin hefur verið ákvörðun um að selja allar íbúðirnar tuttugu talsins í tveimur stigahúsum að Fannarfelli 2 og 4 í Efra Breiðholti og kaupa jafn margar í öðrum hverfum borgarinnar. Salan er liður í því að jafna fjölda félagslegs leiguhúsnæðis í hverfum borgarinnar. Félagsbústaðir eiga í dag um 1740 íbúðir víðs vegar um borgina en þar af eru flestar íbúðirnar í Efra Breiðholti, pósthverfi 111, eða 20%. Til samanburðar er þetta hlutfall í hverfunum 101, 104 og 105 12-13% en í öðrum hverfum lægra, eða 10-12%. Í Fellahverfi eru 196 félagslegar leiguíbúðir á tiltölulega litlu svæði en þær voru byggðar árið 1973 sem hluti af átaki Framkvæmdanefndar byggingaráætlunar um fjölgun félagslegra íbúða. Áætlað er að íbúðirnar fari í sölu í febrúar/ mars á næsta ári en þá hafa leigjendur íbúðanna flutt í aðrar íbúðir á vegum Félagsbústaða. Ef vel tekst til er fyrirhugað að halda áfram á þessari braut á næstu árum.