Monthly Archives

July 2006

Að ná sáttum við umhverfi sitt

By | Fréttir
Á lífsleiðinni lendar flestir í einhvers konar ágreiningi, en hann er óhjákvæmilegur þáttur eðlilegra samskipta. Hægt er að bregðast við ágreiningi á mismunandi hátt – hann getur orðið að illleysanlegu vandamáli sem hefur slæm áhrif á okkur og umhverfi okkar, en við getum líka nýtt orkuna á jákvæðan hátt til þess að finna viðunandi lausn á málinu, þroska okkur og breyta viðhorfum okkar. Í Miðgarði, þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness, hefur nú verið sett á laggirnar nýtt tilraunaverkefni í sáttamiðlun í nágrannaerjum. Verkefnið er unnið í anda Hringsins sem starfræktur hefur verið í Miðgarði í nokkur ár og er unnið í samvinnu við Félagsbústaði og miðar að því að finna lausn á ágreiningi sem upp kemur milli nágranna vegna meintra húsreglubrota í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Fyrirkomulagið er í stórum dráttum þannig að allir aðilar fá tækifæri til þess að tjá sig um upplifun sína og skoðun á atvikinu, og eru síðan aðstoðaðir af sérfræðingum Miðgarðs, með ákveðinni aðferðafræði, við að leysa úr vandanum og ná sáttum. Leigjendur Félagsbústaða í Grafarvogi og Kjalarnesi eru hvattir til þess að kynna sér þessa þjónustu. Hafið samband við Miðgarð í síma 411-1400

Of seint að vera vitur eftir á

By | Fréttir
Í ljósi bruna sem átt hafa sér stað í húsnæði Félagsbústaða á undanförnum árum viljum við enn og aftur hvetja leigjendur til þess að fara varlega með eld, yfirfara rafmagnstæki með tilliti til brunahættu og gæta þess að nauðsynlegar brunavarnir séu til staðar á heimilinu. Félagsbústaðir hafa kappkostað og lagt á það áherslu við afhendingu íbúða að reykskynjarar og eldvarnarteppi séu til staðar í íbúðunum og slökkvitæki í sameignum. Nauðsynlegt er hins vegar að íbúar gæti þess reglulega að þessar brunavarnir séu virkar með því t.d. að prófa reykskynjara og skipta um rafhlöðu ef með þarf og að eldvarnarteppin séu aðgengileg í eldhúsi. Þá ætti að vera regla á hverju heimili að athuga með kertaljós og öskubakka, og enn fremur slökkva á vélum og tækjum áður en gengið er til náða eða húsnæðið yfirgefið. Þetta á ekki síst við um þvottavélar þar sem algengt er að eldur kvikni í þeim þegar þær eru í notkun. Það er því ekki ráðlegt að láta þessar vélar vinna meðan heimilisfólk sefur eða er ekki heima. Lögboðin brunatrygging húsnæðis bætir ekki tjón á innbúi hvort sem bruninn á sér stað í viðkomandi íbúð eða í annarri íbúð í húsinu. Innbú þarf að tryggja sérstaklega og eru íbúar því hvattir til að huga að því að innbú þeirra sé tryggt með viðunandi hætti. Það er nefnilega of seint að vera vitur eftir á.

Framkvæmdaáætlun 2006

By | Fréttir
Í framkvæmdaáætlun þessa árs eru fastir kostnaðarliðir umfangsmiklir að venju. Vegur þar þyngst kostnaður við íbúðaskipti, framkvæmdagjöld húsfélaga og ýmislegt ófyrirséð viðhald. Af einstökum verkefnum má nefna að verið er að setja nýjar og vandaðar útihurðir í öll hús Félagsbústaða í Fellunum og víðar. Um leið eru settir upp nýir og vandaðir póstkassar sem póstburðarfólk getur þjónustað utanfrá. Á nokkrum stöðum er verið að mála stigaganga og skipta um gólfdúka í sameignum. Furugerði 1 verður málað að utan í sumar og lokið verður við framkvæmdir í Bjarnaborg, málun hússins, lóðaframkvæmdir o.fl. Áfram er haldið við lagfæringar á íbúðum sem eru í búsetu, unnið að öryggismálum og ýmis smærri verkefni. Heildarkostnaður vegna viðhalds á árinu 2006 er áætlaður tæpar 600 milljónir.

Sameignir og bílastæði

By | Fréttir
Að gefnu tilefni vilja Félagsbústaðir árétta það við leigjendur sína að bannað er að skilja eftir í sameign fjölbýlishúsa hvers konar húsgögn, tæki, dót eða drasl. Í samræmi við húsreglur þá áskilja Félagsbústaðir sér allan rétt til að fjarlægja það fyrirvaralaust sem skilið er eftir í óleyfi í sameign á kostnað viðkomandi húsfélags. Því er beint til leigjenda að geyma muni og eigur innan íbúða sinna eða í geymslum og að fara með það sorp sem er umfangsmeira en heimilissorp í Sorpu. Þá er vert að taka fram að sameiginleg bílastæði við fjölbýlishús Félagsbústaða eru eingöngu ætluð fyrir nothæfa bíla og eru númerslausir bílar, kerrur og hjól- eða fellihýsi fjarlægð í samráði við Gatnamálastofu.

Tvö fjölbýlishús keypt

By | Fréttir
Gengið hefur verið frá kaupum FB á tveimur fjölbýlishúsum í eigu Reykjavíkurborgar. Um er að ræða alls 124 þjónustuíbúðir fyrir aldraða, 64 íbúðir að Dalbraut 21-27 og 60 íbúðir að Norðurbrún 1. Allur rekstur verður óbreyttur og sú þjónustustarfsemi sem nú er til staðar í þessum húsum verður áfram í höndum Reykjavíkurborgar.