Monthly Archives

December 2006

Staða aðgengismála á Norðurlöndum

By | Fréttir

Í sumar kom út ritið “Staða aðgengismála á Norðurlöndum” á vegum Félagsbústaða og er höfundur þess Þórarinn Magnússon verkfræðingur og deildarstjóri framkvæmdadeildar félagsins. Í skýrslunni er m.a. gerð grein fyrir því hvernig frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa staðið að verki við að bæta aðgengi í eldra íbúðarhúsnæði, hvaða framkvæmdir hefur verið ráðist í og hvaða leiðir hafa verið farnar til fjármögnunar.

Ýmsar aðrar fróðlegar upplýsingar er að finna í ritinu en hægt er að skoða það í heild á heimasíðu félagsins. Félagsbústaðir munu á næstu árum leggja mikla áherslu á að bæta aðgengi í fjölbýlishúsum í eigu félagsins. Jafnframt hefur verið ákveðið að í öllu nýju húsnæði sem félagið lætur reisa verði tekið fullt tillit til aðgengis fyrir alla.

Til að fylgja þessu málefni eftir stóðu Félagsbústaðir fyrir almennri ráðstefnu í Norræna húsinu þann 27.október s.l. í samvinnu við Norrænan byggingadag, Umhverfisráðuneytið og Íbúðalánasjóð. Ráðstefnan var vel sótt og þar fluttu erindi sérfróðir aðilar frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi.

Skýrsluna má nálgast hér.

Grænt bókhald

By | Fréttir

Út er komin umhverfisskýrsla Félagsbústaða fyrir árið 2005 – grænt bókhald. Þetta er í annað sinn sem slík skýrsla kemur út, en fyrsta skýrslan var fyrir árið 2004. Ákveðið hefur verið að grænt bókhald verði fastur þáttur í starfsemi Félagsbústaða og að umhverfisskýrslan verði gefin út árlega.

Hægt er að skoða skýrsluna hér.

Jólin nálgast

By | Fréttir
Aðventa er nú gengin í garð og senn líður að jólum og áramótum. Á þessum hátíðlega tíma ársins vilja Félagsbústaðir koma fáeinum ábendingum á framfæri til leigjenda sinna. Í kringum jól og nýár myndast oft mikið sorp tengt jólahreingerningum, auglýsingabæklingum gjafapappír o.s.frv. og eru leigjendur beðnir að gæta þess að stífla ekki sorprennur með of miklu magni eða “lögun” sorpsins. Hátíð ljóssins fylgir einnig aukin kertanotkun, margvíslegar ljósaseríur og flugeldanotkun en í öllu þessu er ávallt fólgin aukin eldhætta. Leigjendur eru því hvattir til að fara gætilega með eld og rafmagn og að athuga hvort reykskynjarar séu virkir. Félagsbústaðir annast uppsetningu á reykskynjurum þar sem þá vantar sem og endurnýjun á þeim. Mikilvægt er einnig að eldteppi séu til staðar og aðgengileg. Að lokum ber að taka það fram að skrifstofa Félagsbústaða er opin þann 22.desember til kl.16:00 og alla virka daga á milli jóla og nýárs. Félagsbústaðir óska öllum sínum leigjendum og samstarfsaðilum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með þökk fyrir samstarfið á líðandi ári.

Lykilatriði

By | Fréttir
Að gefnu tilefni er leigjendum vinsamlega bent á að sýna fyrirhyggju varðandi lykla að íbúðum sínum. Við afhendingu íbúðar fá leigjendur öll eintök lykla að íbúðarhurðum og því geyma Félagsbústaðir engin varaeintök af þeim. Því er mikilvægt að leigjendur sýni fyrirhyggju og láti sjálfir útbúa varalykla þar sem Félagsbústaðir aðstoða ekki ef lyklar týnast eða ef leigjendur vilja af einhverjum ástæðum skipta um skrá. Varðandi lykla að útidyrahurðum í sameignum fjölbýlishúsa í fullri eigu Félagsbústaða þá þarf að hafa samband við bilanatilkynningar í síma 557-9664 og er þá útbúin beiðni á nafni skráðs leigjanda sem er send og afgreidd í Láshúsinu, Bíldshöfða 16.

Fjölgun íbúða

By | Fréttir
Áður hefur verið sagt frá kaupum Félagsbústaða hf. á samtals 124 þjónustuíbúðum fyrir aldraða að Dalbraut og Norðurbrún af Reykjavíkurborg. Að auki verður almennum leiguíbúðum fjölgað um 100 á árinu með kaupum á íbúðum víðs vegar um borgina. Með þessari fjölgun verða íbúðir fyrirtækisins 1964 talsins í árslok 2006. Fram til ársloka 2010 er ráðgert að fjölga almennum leiguíbúðum Félagsbústaða árlega um 100 íbúðir jafnframt sem skoðað verður að fjölga þjónustuíbúðum um150 á árunum 2008-2010.

Vetrarverk

By | Fréttir
Þegar vetur gengur í garð þá er að ýmsu að huga varðandi rekstur fasteigna. Niðurfall á svölum, bíla-stæðum og víðar geta stíflast í snjó og krapi og það getur valdið óþægindum og tjóni ef ekki er brugðist skjótt við. Félagsbústaðir biðja leigjendur að vera á varðbergi og grípa til viðeigandi ráðstafana ef slík vandamál koma upp. Félagsbústaðir munu eins og áður annast snjóhreinsun og hálkuvörn á bílastæðum og gangstéttum við þau fjölbýlishús sem eru í eigu félagsins.