Monthly Archives

May 2008

Tilkynning til leigjenda um breytt form á niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar

By | Fréttir

 

Ákveðið var í borgarráði 25. apríl s.l. að almennum niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar vegna leiguíbúða Félagsbústaða verði breytt í persónubundinn stuðning við leigjendur í formi almennra húsaleigubóta og sérstakra húsaleigubóta.

Hvernig er húsaleiga Félagsbústaða hf. ákvörðuð?
Leiga hjá Félagsbústöðum tekur mið af kostnaði við rekstur húsnæðis í eigu félagsins. Útreikningur raunleigu húsnæðis er reiknaður sem 8,39% af fasteignamati íbúðar 1.1.2004 að viðbættum ársfjórðungslegum verðlagshækkunum frá þeim tíma. Hlutur leigjanda var 5,32% sem innheimtur er sem mánaðarleg leiga að viðbættum hússjóði, sem aðallega samanstendur af hita, rafmagni og ræstingu. Mismunurinn 3,07% , sem var niðurgreiðsla borgarinnar vegna viðkomandi íbúðar, hefur verið greiddur til Félagsbústaða mánaðarlega í formi framlags. Þessi niðurgreiðsla hefur hingað til ekki komið fram á greiðsluseðlum leigjenda.

Breytingar á grunnverði húsaleigu til leigjanda:
Í stað þess að Reykjavíkurborg niðurgreiði félagslegt leiguhúsnæði beint til Félagsbústaða hf. mun grunnleiga hækka upp í útreiknaðan raunkostnað fyrir hverja íbúð. Sérstökum húsaleigubótum er ætlað að jafna út mismun vegna hærri grunnleigu, en þó á persónubundinn hátt með viðmiði í tekjum leigjandans. Sérstakar húsaleigubætur eru til viðbótar almennum húsaleigubótum og reiknaðar sem 1,3 margfeldi af þeim bótum. Þessar bætur eru eins og almennu húsaleigubæturnar skattfrjálsar og rýra ekki aðrar bætur s.s. frá Tryggingastofnun Ríkisins.

Greiðslubyrði leigjenda:
Áhrif þessara breytinga á greiðslubyrði vegna leigunnar verða með þeim hætti að hún lækkar hjá stærstum hluta leigjenda hjá Félagsbústöðum en mun hækka í þeim  tilvikum þar sem leigjandi er með skertar almennar húsaleigubætur vegna tekna umfram skilgreind tekjumörk reglna um almennar  húsaleigubætur.
Það skal hér skýrt tekið fram að þessar breytingar munu ekki koma til með að hækka tekjur Félagsbústaða heldur er hér um að ræða breytingu á félagslegri aðstoð Reykjavíkurborgar til leigjenda Félagsbústaða innbyrðis. Markmið breytinganna er fyrst og fremst  að gera stuðninginn skilvirkari til þess að hann nýtist betur þeim sem mest þurfa á honum að halda.

Að lokum þá er leigjendum Félagsbústaða hér með vinsamlegast bent á að hafa samband við þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar í sínu hverfi til þess að fá frekari upplýsingar eða viðtal hjá ráðgjafa til þess að átta sig frekar á áhrifum breytinganna.