Monthly Archives

December 2009

Eldvarnarátak – leiðbeiningarblað fyrir hátíðirnar

By | Fréttir

Þar sem jólum og áramótum geta oft fylgt margvíslegar eldhættur var ákveðið að bæta um betur frá því fyrr á árinu þegar út kom leiðbeiningarblað um eldvarnir og gera annað slíkt sérstaklega tileinkað jóla- og áramótahátíðinni. Er það uppsett á einfaldan hátt með gagnlegum ábendingum um helstu hætturnar sem þarf að varast og þær eldvarnir sem þurfa að vera til staðar á heimilinu.

Á bakhlið blaðsins er viðtal við slökkviliðsmanninn Jón Pétursson sem fræðir lesendur um eldvarnir og brunahættur. Fengu leigjendur Félagsbústaða hf. leiðbeiningarblaðið og fréttabréf félagsins sent heim til sín í umslagi ásamt jólagjöf frá VÍS í formi rafhlöðu fyrir reykskynjara.

Þetta er áframhald á því ágæta eldvarnarátaki sem Félagsbústaðir hf. standa fyrir í samstarfi með Vátryggingafélagi Íslands og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Átakið hefur gengið vonum framar og hefur það skilað sér í fækkandi tilvikum um bruna og eldsvoða sem er allra heill og hagur. Samstarf allra aðila hefur gengið sérlega vel og viðtökur leigjanda hafa verið afar góðar og má jafnvel tala um vakningu meðal þeirra um að hafa eldvarnarmálin á hreinu í sinni íbúð og fjölbýlishúsi.

Leiðbeiningarblaðið ásamt viðtalinu er hægt að nálgast hér.

 

Nýtt jólafréttabréf

By | Fréttir

Í jólamánuðinum kom út nýtt fréttabréf Félagsbústaða hf. Af helsta efni ber að nefna grein um ástandið á húsnæðismarkaðnum, Vefþuluna á heimasíðunni, verðlaun Sjálfsbjargar og áframhaldandi eldvarnarátak félagsins í samvinnu við Vátryggingarfélag Íslands og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Þar sem jólum og áramótum geta oft fylgt margvíslegar eldhættur var ákveðið að gera sérstakt leiðbeiningarblað um eldvarnir tengdar hátíðunum og fylgdi það með fréttabréfinu ásamt jólagjöf frá VÍS í formi rafhlöðu fyrir reykskynjara.

Upplagið er 2300 eintök og er dreift til allra leigjanda Félagsbústaða hf.

Hægt er að nálgast fréttabréfið og leiðbeiningarblaðið hér á heimasíðunni.