Monthly Archives

December 2011

Jólafréttabréfið komið út

By | Fréttir

Nú í desember kom út fréttabréf Félagsbústaða hf. Af helsta efni ber að nefna fréttir um umhverfismál hjá félaginu, góðan árangur í eldvörnum ásamt jólakveðju til leigjenda. Upplag fréttabréfsins er 2300 eintök og er því dreift til allra leigjenda.

        

Umhverfismál hafa ávallt verið í öndvegi hjá Félagsbústöðum og hefur félagið haft umhverfisstefnu frá stofnun þess og haldið grænt bókhald frá árinu 2004. Unnið hefur verið að því á þessu ári að bæta um betur og hafa verið settar endurvinnslutunnur við nokkur fjölbýlishús og von er á fleirum á næsta ári. Þá fór fyrsti metanbíll félagsins á götuna en það er í takt við græna samgöngustefnu Reykjavíkurborgar. Nánar er fjallað um þetta á forsíðu fréttabréfsins en einnig verður ítarlegri frétt um umhverfismálin á nýju ári.

  

Á baksíðunni er fjallað um hversu mikinn árangur eldvarnarátak VÍS og Félagsbústaða hefur borið. Á þeim þremur árum sem átakið hefur staðið yfir hafa brunatjón fækkað um 2/3 eða úr því að vera 18 tilvik árið 2008 í það að vera 6 að meðaltali síðustu 3 ár. Það er glæsilegur árangur og ber að þakka leigjendum fyrir sinn þátt í því. Að því tilefni gefur VÍS leigjendum Félagsbústaða jólagjöf í formi rafhlöðu í reykskynjara en þetta er í þriðja sinn sem þeir gera slíkt.

Einnig er leigjendum bent á að heimsækja Forvarnarheimilið á heimasíðu VÍS en þar eru gagnlegar ábendingar varðandi eld-, innbrota- og vatnsvarnir.

Að lokum óska Félagsbústaðir öllum leigjendum og samstarfsaðilum sínum gleðilegrar jólahátíðar og farsæls komandi árs.