Monthly Archives

May 2012

Félagsbústaðir eru fyrirmyndarstofnun

By | Fréttir

Niðurstöður úr könnun Starfsmannafélags Reykjavíkur um “Stofnun ársins – borg og bær 2012” voru kynntar nýlega. Er þetta í fyrsta sinn sem St.Rv. tekur þátt í slíkri könnun en þetta er samvinnuverkefni SFR stéttarfélags og VR.

Könnunin er ein stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. VR hefur útnefnt Fyrirtæki ársins í 16 ár en SFR hefur staðað fyrir vali á Stofnun ársins sl. 6 ár. Capacent Gallup sá um framkvæmdina og fengu félagsmenn spurningalista í pósti eða á netinu.

Leitast er við að meta og gefa góða mynd af starfsumhverfi og starfsánægju starfsmanna hjá viðkomandi stofnun/fyrirtæki. Í könnuninni er leitað eftir viðhorfi félagsmanna til vinnu sinnar og yfirmanna, líðan þeirra í starfi, starfsumhverfi, tækjabúnað og hvernig samskiptum er háttað á vinnustaðnum.

Starfsmenn geta svo notað niðurstöðurnar til að meta eigin vinnustað í samanburði við aðra. Einnig er tækifæri fyrir stjórnendur til að fá stöðumat á starfsmannamálum sínum og geta þannig notað úttektina til að hlúa að því sem vel er gert og bætt og breytt því sem betur má fara í starfinu.

Er niðurstöðurnar voru gerðar opinberar kom í ljós að Félagsbústaðir hf. höfðu lent í 2.sæti í sínum flokki fyrir minni stofnanir hjá borg og bæ. Fyrirtækið telst því Fyrirmyndarstofnun árið 2012 og getur skartað því sæmdarheiti næsta árið. Félagsbústaðir hf. eru efstir af þeim stofnunum/fyrirtækjum sem eingöngu eru starfrækt innan Reykjavíkur, en af 6 verðlaunum fóru 4 til vinnustaða á Akranesi.

Starfsmenn og stjórnendur Félagsbústaða hf. eru afar stoltir af sínum árangri og munu gera sitt besta til að bæta árangurinn að ári liðnu. Verðlaun sem þessi eru hvatning fyrir alla innan fyrirtækisins til frekari framfara og betrumbóta.

Nánari upplýsingar um könnunina má finna hér.