Monthly Archives

March 2015

Þróun leiguverðs íbúða á almennum markaði

By | Fréttir

Undanfarin misseri hefur leiga á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkað mikið umfram verðlag, en frá upphafi árs 2011 hefur leiga íbúðarhúsnæðis á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 39%. Á sama tímabili hefur leiga á íbúðum Félagsbústaða hækkað um 16%. Hækkun á síðasta ári var hverfandi vegna stöðugs verðlags.

Leiga hjá Félagsbústöðum breytist með vísitölu neysluverðs á þriggja mánaða fresti. Leiguverð félagsins hefur hér verið sett fram í formi vísitölu sem stillt er 100 í upphafi árs 2011. Til samanburðar er leiga á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands, þar sem haldið er utan um leiguverð þinglýstra leigusamninga á Íslandi.

Ársuppgjör fyrir árið 2014

By | Fréttir

Félagsbústaðir, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði borgarinnar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær.

Rekstur og fjárhagsstaða
Rekstrartekjur Félagsbústaða námu 3.078 millj.kr. á árinu 2014 og jukust um rúm 4% frá fyrra ári aðallega vegna verðlagshækkunar leigu og stækkunar eignasafnsins.

Afkoma félagsins fyrir verðbætur lána og matsbreytingu fjárfestingaeigna nam 579 millj.kr. miðað við 533 millj.kr. árið á undan, sem nemur tæplega 9% aukningu milli ára. Þessa bættu afkomu má aðallega rekja til lækkunar á viðhaldskostnaði, lækkunar á afskriftum viðskiptakrafna og lækkunar á öðrum skrifstofu og stjórnunarkostnaði.

Eftir verðbætur lána að fjárhæð 294 millj.kr. og matsbreytingu fjárfestingaeigna að fjárhæð 4.461 millj.kr. og sölutap eigna upp á 32 millj.kr. nam hagnaður Félagsbústaða 4.713 millj.kr. á árinu 2014.  Hagnaður félagsins er að langstærstum hluta til kominn vegna breytinga í ytra umhverfi, þ.e. mikillar hækkunar húsnæðisverðs umfram hækkun verðbólgu, en ekki breytinga í beinum rekstri félagsins. 

Heildareignir Félagsbústaða í árslok 2014 námu 47.3 milljörðum kr., en leiguíbúðir félagsins eru verðmetnar samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár Íslands í febrúar 2014 sem framreiknað er til ársloka í takt við breytingar á vísitölu fasteignaverðs fyrir fjölbýli til ársloka.  Eigið fé nam 17,4 milljörðum kr. í árslok 2014 og hækkaði um tæpa 4,8 milljarða.kr. á árinu. Eiginfjárhlutfall er 36,8% í árslok 2013 en var 30,0% árið á undan.

Ársreikningur Félagsbústaða hf. fyrir árið 2014 er aðgengilegur hér á heimasíðunni. Hann er einnig aðgengilegur á heimasíðu Kauphallar Íslands ásamt fréttatilkynningu og lykiltölum á þessari vefslóð.

Þá er skýrsla stjórnar frá aðalfundi Félagsbústaða hf. árið 2015 einnig aðgengileg hér.