Austurbrún og Kambavað

Stutt yfirlit um verkið

Félagsbústaðir hf eru að byggja tvö einnar hæðar hús við Austurbrún 6 og Kambavað 5 fyrir fjölfatlaða einstaklinga auk stoðrýma og starfsmannarýma, samkvæmt teikningu ASK arkitekta. Ýmsar sérlausnir þarf að hafa í huga varðandi útfærslu byggingarhluta þegar þessi hópur er annarsvegar, til að mynda þarf að huga sérstaklega að ferli- og aðgengismálum. Húsin eru samtals um 1200 fermetrar með 6 íbúðum hvort hús.

Húsin eru bæði úr forsteyptum einingum frá Loftorku Borgarnesi. Þessi byggingaraðferð er örlítið dýrari en hefðbundinn byggingamáti en styttir byggingartíma verulega. Byrjað var á að grafa fyrir sökklum í Kambavaði 5 í lok febrúar 2017 og síðan í beinu framhaldi var grafið fyrir sökklum undir húsið við Austurbrún 6. Í júní var búið að reisa fullbúna útveggi við Kambavað og u.þ.b þremur vikum seinna lauk vinnu við reisingu útveggja Austurbrúnar 6. Um miðjan ágúst var ísetningu glugga og hurða lokið við Kambavað og vinna við þak Austurbrúnar nær lokið. Það má því segja að þessi byggingaraðferð hafi sannað sig hvað varðar byggingarhraða.

Áætluð verklok á Kambavaði 5 eru í apríl 2018 og á Austurbrún 6 í maí 2018.