Category

Fréttir

Riftun húsaleigusamninga Félagsbústaða

By | Fréttatilkynningar, Fréttir

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar undanfarið um samskiptavandamál í tilteknu húsnæði í eigu Félagsbústaða er rétt að minna á að félagið á og leigir út liðlega 2600 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Félagsbústaðir eru hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs húsnæðis í eigu Reykjavíkurborgar en um afnot leigjenda gilda leigusamningar sem gerðir eru í upphafi leigutíma og ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 þar með talið um uppsögn leigusamninga.

Rekstur íbúða Félagsbústaða gengur alla jafna vel og umgengni um íbúðirnar og samskipti leigjenda sín á milli og við starfsfólk Félagsbústaða er yfirleitt með ágætum. Þó eru á þessu stöku undantekningar þar sem brot einstakra leigjenda á húsreglum Félagsbústaða rýra lífsgæði annarra íbúa og valda þeim óþægindum og áhyggjum.  Kvartanir vegna slíkra brota eru teknar alvarlega af starfsfólki Félagsbústaða sem kappkostar að taka á þeim af fagmennsku og sanngirni bæði gagnvart þeim sem kvartað er undan og nágrönnum viðkomandi sem kvartað hafa.

Riftun samninga

Leigusamningar eru að öllu jöfnu ótímabundnir og útleiga án nokkurra vandkvæða. Til þess getur þó komið að rifta þurfi leigusamningi og vísa leigjendum úr íbúðum Félagsbústaða m.a. vegna brota á húsreglum. Við meðferð slíkra mála er stuðst við verklagsreglur Félagsbústaða sem byggja á Húsaleigulögum nr.36/1994. Árið 2017 voru 10 útburðarmál rekin fyrir héraðsdómi vegna brota á húsreglum Félagsbústaða og árið 2018 komu 12 slík mál til meðferðar.

Við sannanlegt brot á húsreglum fær leigjandi skriflega viðvörun. Ef húsreglur eru brotnar eftir slíka viðvörun er send lokaviðvörun. Brjóti leigjandi húsreglur eftir lokaviðvörun er húsaleigusamningi rift og óskað eftir að íbúðin verði rýmd innan tiltekins frests. Í kjölfarið er í flestum tilvikum farið í vitjun til leigjanda með félagsráðgjafa frá þjónustumiðstöð velferðasviðs Reykjavíkurborgar þar sem áréttuð eru tilmæli um að leigjandi flytji úr íbúðinni. Í sumum tilvikum getur félagsráðgjafi boðið leigjanda önnur úrræði og því þarf sjaldnast að grípa til útburðar með atbeina dómstóla og/eða til rýmingar fyrir milligöngu sýslumanns.

Neiti leigjandi hins vegar að rýma íbúðina þarf að höfða útburðarmál fyrir héraðsdómi og þegar úrskurður hans liggur fyrir er málinu vísað til sýslumanns með ósk um að hann annist rýmingu íbúðarinnar. Slíkt ferli getur tekið nokkurn tíma og fer eftir þeim fjölda mála sem fyrirliggjandi eru hjá viðkomandi embættum á hverjum tíma.

Ráðning framkvæmdastjóra

By | Fréttir

Sigrún Árnadóttir ráðin framkvæmdastjóri Félagsbústaða

Sigrún Árnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Félagsbústaða, en hún hefur gegnt því starfi tímabundið frá því í október 2018 í kjölfar breytinga sem þá urðu á stjórnun félagsins. Hagvangur annaðist ráðningarferlið fyrir hönd stjórnar og var niðurstaða Hagvangs að Sigrún væri hæfust umsækjenda til að gegna starfi framkvæmdastjóra Félagsbústaða.

 

 

 

 

Read More

Félagsfundur Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum

By | Fréttir

Félagsbústaðir vilja vekja athygli á eftirfarandi félagsfundi Félags leigjendasamtaka leigjenda hjá Félagsbústöðum (FLHF).

Laugardaginn 2. mars nk. mun FLHF halda almennan félagsfund á The Tin Can Factory Borgartúni 1. Fundurinn mun hefjast kl 14.00 og standa til 16.00.

 

Mikill meirihluti ánægður með að leigja hjá Félagsbústöðum

By | Fréttir

Viðhorfskönnun meðal leigjenda:

Um 79% íbúa Félagsbústaða eru frekar eða mjög ánægðir með að leigja hjá félaginu en 13% eru frekar eða mjög óánægðir og 7% segjast hvorki ánægðir eða óánægðir með að leigja hjá Félagsbústöðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem MMR gerði fyrir Félagsbústaði á viðhorfum leigjenda félagsins. Um síma- og netkönnun var að ræða sem fram fór frá 11. nóvember til 15. desember síðastliðinn. Alls voru 846 leigendur Félagsbústaða í upphaflegu úrtaki og var svarhlutfallið 35%.

Samkvæmt könnuninni eru 63% leigjenda frekar eða mjög ánægðir með þjónustu Félagsbústaða, 22% eru frekar eða mjög óánægðir og 15% taka ekki afstöðu til spurningarinnar. Þegar spurt er um traust leigjenda til Félagsbústaða segjast 67% svarenda ýmist bera mikið eða mjög mikið traust til félagsins, 14% bera lítið eða mjög lítið traust en 19% taka ekki afstöðu. Þá eru 65% svarenda sammála því að starfsfólk Félagsbústaða leggi sig fram um að veita góða þjónustu en 19% eru því ósammála, 16% tóku ekki afstöðu.

Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða segir þetta fyrstu viðhorfskönnunina sem gerð er meðal leigjenda og segir hana leiða ýmislegt í ljós sem unnið verði með áfram. „Það er gott að sjá að mikill meirihluti aðspurðra er ánægður með að leigja hjá Félagsbústöðum og telur leiguverð hagstætt“,  segir Sigrún.

Ánægja með leiguverð og umhverfi

Um tveir þriðju svarenda eða 65% eru sammála því að leiguverð íbúða hjá Félagsbústöðum sé hagstætt en 20% svarenda eru því ósammála og 14% taka ekki afstöðu. Þá telja 78% svarenda að húsnæðið sem þeir leigja af Félagsbústöðum veiti þeim öruggt umhverfi en 17% eru því ósammála og 5% taka ekki afstöðu. Þegar afstaðan til þessarar spurningar er skoðuð eftir gerð íbúða sem svarendur búa í er öryggistilfinningin mest hjá þeim sem eru í þjónustuíbúðum eða í sértæku búsetuúrræði. Um níu af hverjum tíu sem eru í slíkum íbúðum finnst húsnæðið veita þeim öruggt umhverfi en 6-10%  eru ósammála því.  Af þeim sem búa í almennum íbúðum telja 73% íbúðirnar veita þeim öruggt umhverfi en 20% eru ósammála því og 7% taka ekki afstöðu.

Þá segjast 46% aðspurðra finna fyrir fordómum í garð leigjenda frá öðru fólki í samfélaginu og telja 16% þeirra sig finna fyrir þessu viðhorfi hjá starfsfólki Félagsbústaða og 13% frá vinum og kunningjum. Hins vegar segjast 49% svarenda ekki hafa fundið fyrir fordómum í garð leigjenda Félagsbústaða. Um 55% aðspurðra segjast líta á núverandi húsnæði hjá Félagsbústöðum sem sitt framtíðarahúsnæði en 45% segja það vera millibilshúsnæði ýmist til lengri eða skemmri tíma.

Félagsbústaðir bregðast við skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkur

By | Fréttir

Stjórn Félagsbústaða hefur ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á starfsemi og innra eftirliti félagsins í kjölfar úttektar sem gerð var vegna umframkostnaðar við endurbætur á 53 íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík.

Í maí 2016 óskuðu stjórn og framkvæmdastjóri Félagsbústaða eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að hún gerði úttekt á viðhaldsverkefni félagsins við Írabakka 2-16 á árunum 2012 -2016. Fyrir lá að ýmsar brotalamir höfðu verið á framkvæmd og skipulagi verkefnisins.

Skýrsla Innri endurskoðunar var nýlega kynnt fyrir stjórn og komu þar fram alvarlegar athugasemdir við stjórnhætti í tengslum við umrætt verkefni.  Þrátt fyrir að undanfarin ár hafi stjórn félagins átt í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra um margþættar úrbætur á rekstri félagsins hefur framkvæmdastjóri, í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu í skýrslu Innri endurskoðunar, kosið að segja starfi sínu lausu í þeirri von að sátt skapist um rekstur félagsins og svigrúm til frekari endurbóta. 

Úttektin leiddi í ljós að á fjögurra ára tímabili sem hún tók til samþykkti stjórn framkvæmdir fyrir 398 m.kr.  Árið 2012 var farið af stað með viðhaldsverkefni upp á 44 milljónir króna til að skipta út gluggum, ofnum og tréverki á Írabakka 2-16, en fljótlega kom í ljós að mun meira viðhalds var þörf. Því samþykkti stjórn næstu fjögur ár framkvæmdir fyrir 398 m.kr.

Heildarkostnaður Félagsbústaða vegna þessara framkvæmda reyndist að lokum 728 milljónir króna sem er 330 milljónir króna umfram þær heimildir sem stjórnin veitti á framkvæmdatímanum og felur í sér 83% framúrkeyrslu. Úttektin leiðir í ljós að skerpa þarf á verkferlum og setur Innri endurskoðun Reykjavíkur fram margvíslegar ábendingar um hvernig bæta má innra eftirlit Félagsbústaða.

Stjórn Félagsbústaða telur ábendingar Innri endurskoðunar gagnlegar og hefur samþykkt að vinna að úrbótum í samræmi við þær. Sigrún Árnadóttir, fyrrum bæjarstjóri í Sandgerði og áður framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, hefur verið ráðinn sem starfandi framkvæmdastjóri þar til ráðinn verður nýr framkvæmdastjóri í kjölfar auglýsingar. Hlutverk Sigrúnar verður að vinna með stjórn félagsins að því að bæta verkferla og að hrinda úrbótum í framkvæmd sem koma fram í úttekt Innri endurskoðunar.

Meðal ábendinga sem Innri endurskoðun setur fram er að þegar fyrirséð eru mikil frávik frá samþykktum áætlunum beri að sækja formlega um viðbótarfjárheimildir til stjórnar áður en stofnað er til útgjalda.  Ennfremur er áréttað að Félagsbústöðum beri að hlíta lögum um opinber innkaup og koma á innkaupaferli sem felur meðal annars í sér að fram fari útboð þegar kostnaðaráætlun fer yfir viðmiðunarfjárhæðir. Þá er bent á að stjórn Félagsbústaða þurfi að setja félaginu innkaupastefnu til að stuðla að góðri innkaupastjórn og eyða óvissu um verklag við innkaup.

Nánari upplýsingar:

Haraldur Flosi Tryggvason stjórnarformaður: s: 840 0575