Fréttabréf Félagsbústaða 2015 komið út

By December 18, 2015 Fréttir

Nú er nýútkomið fréttabréf Félagsbústaða og er því dreift til allra leigjenda félagsins ásamt rafhlöðu í reykskynjara í boði Vátryggingafélags Íslands.

Að vanda er margt fréttnæmt og ber þar helst að nefna forsíðufrétt um yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum en Félagsbústaðir eru á meðal þeirra 103 íslenskra sem skrifuðu undir hana í tengslum við 21.loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París.

 

Þá er ítarleg umfjöllun um loftræstingu, rakamál og myglu en í tengslum við þá frétt má benda á ítarefni hér á heimasíðunni í formi leiðbeiningarblaðs til að forðast rakaskemmdir, leiðbeiningarhefti Umhverfisstofnunar sem kom út fyrr á árinu og nýútbúið leiðbeiningarblað um verklag í rakamálum ásamt réttindum og skyldum leigjenda.

  

Sem fyrr er umfjöllun um forvarnarmál umfangsmikil í fréttabréfinu enda desember sá mánuður sem eldsvoðar á heimilum eru tíðastir. Að því marki halda VÍS og Félagsbústaðir áfram sínu góðu samstarfi í eldvörnum með góðum ábendingum og dreifa rafhlöðum í reykskynjara til leigjenda sjöundu jólin í röð.

Til að hvetja leigjendur til dáða í að skipta sem fyrst um rafhlöðurnar í reykskynjurum ákváðu VÍS og Félagsbústaðir að endurtaka jólaleikinn frá því í fyrra. Eina sem þeir þurfa að gera er að vera snöggir til að skipta um rafhllöðuna þegar hún berst og skrá sig til leiks í gegnum heimasíðuna.

Skráning til þátttöku er til síðasta dags aðventu eða sunnudaginn 20.desember en að þeim tíma loknum verða þrír heppnir þátttakendur dregnir út og hljóta þeir veglegar og öruggar gjafakörfur frá Ostabúðinni að launum. Við hvetjum alla leigjendur til að taka þátt og stuðla að öruggari jólahátíð á heimilum sínum.

 

Ýtið hér til að skrá ykkur til leiks.

Fréttabréfið er prentað af Leturprent í 2.500 eintökum á endurunninn pappír og dreift til allra leigjenda Félagsbústaða.

Þeir sem sakna þess að hafa ekki fengið fréttabréfið í hús til sín eða hafa fleiri en einn reykskynjara á heimilinu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við símatíma bilannatilkynninga milli kl.13:00-15:00 í síma 520-1550. Þá er einnig hægt að senda fyrirspurn á framkvæmdadeild í sömu erindagjörð.

Hægt er að nálgast fréttabréfið hér á heimasíðunni í pdf-skjali.