Fréttatilkynning til Kauphallar Íslands hf.

By March 23, 2011 Fréttir

Fréttatilkynning til Kauphallar Íslands hf. vegna ársuppgjörs Félagsbústaða hf. fyrir árið 2010

 

 

Félagsbústaðir, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær.

 

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða h.f. á árinu 2010  námu 2.399 millj.kr., sem er 6% aukning tekna frá árinu á undan. Aukningin stafar annars vegar af verðlagshækkun leigu og hins vegar betri nýtingu íbúða í leigu á árinu 2010. 

Rekstrartap  félagsins á árinu fyrir lækkun á mati fjárfestingaeigna nam 43 millj.kr. miðað við 1.519 millj.kr. tap  árið á undan.  Bætt rekstrarafkoma frá fyrra ári skýrist annars vegar af lægri verðbótum stofnlána, gengishagnaði og höfuðstólslækkun samfara endurfjármögnun erlendra lána með nýju láni í íslenskum krónum og hins vegar af lægri viðhaldskostnaði.

Lækkun á verðmæti eigna í útleigu á árinu 2010 nam 1.818 millj.kr. sem er 6% af heildarverðmæti eigna miðað við 5% árið á undan.

Tap ársins 2010 nam 1.871 millj.kr. miðað við 3.154 millj.kr árið á undan.

Veltufjármyndun rekstrar nam 302 millj.kr. á árinu 2010 og handbært fé frá rekstri 300 millj.kr.

 

Efnahagur

Heildareignir Félagsbústaða hf. í árslok 2010 námu 31,2 ma.kr., en fjárfestingaeignir eru metnar á fasteignamati sem er gangverð umreiknað til staðgreiðslu í febrúar ár hvert ásamt verðþróun samkvæmt vísitölu fasteignaverðs til ársloka.

Eigið fé í árslok 2010 nam 5,7 ma.kr. og hefur lækkað um 1,8 ma.kr. milli ára. Eiginfjárhlutfall var 18% í árslok 2010 miðað við 23% árið 2009.

 

Kaup og sala íbúða

Á árinu 2010 voru keyptar 11 íbúðir og seldar jafnmargar. Fjöldi íbúða var því óbreyttur frá fyrra ári eða 2154 íbúðir sem skiptast í 1844 almennar leiguíbúðir, aðallega stakar íbúðir í fjölbýlishúsum víðsvegar um borgina og 310 þjónustuíbúðir aldraða  ásamt tilheyrandi þjónusturýnum í 5 þjónustuíbúðakjörnum.

Íbúðaeign félagsins í árslok 2010 nam sem svarar 18 íbúðum á hverja 1000 íbúa í Reykjavík, eða 4,6% af öllu íbúðarhúsnæði í borginni

 

Horfur

Aðstæður á leigumarkaði undanfarin tvö ár, með stórauknu framboði leiguíbúða einkum á fyrsta ársfjórðungi 2009, hafa orðið til þess að leiguverð á almennum leigumarkaði hefur lækkað verulega frá því sem áður var. Að öllum líkindum mun almennt leiguverð fara aftur hækkandi ef spár um aukin umsvif á íbúðamarkaði ganga eftir. Ekki er ósennilegt að slík þróun leiði til aukinnar eftirspurnar eftir félagslegu leiguhúsnæði  nema áform um eflingu leigumarkaðarins gangi eftir með stofnun leigufélaga á faglegum grunni m.a. með þátttöku fjársterkra aðila í samfélagslegum tilgangi.

Undanfarin tvö ár hefur verulega dregið úr kaupum Félagsbústaða á íbúðum og félagið lagt áherslu á endurbætur á eldri fjölbýlishúsum enda aðstæður fyrir slíkar framkvæmdir hagstæðar m.a. með aukinni endurgreiðslu á virðisaukaskatti og nýjum lánaflokki Íbúðalánasjóðs vegna endurbóta á félagslegu húsnæði. Þrátt fyrir verulegan samdrátt í íbúðakaupum Félagsbústaða hafa umsækjendur eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Velferðarsviði borgarinnar ekki verið færri frá árinu 2006 enda hefur almenni markaðurinn lagt sitt að mörkum með auknu framboði og hagstæðu leiguverði með aðstoð sérstakra húsaleigubóta sem eru alfarið stuðningur borgarinnar umfram almennar húsaleigubætur.

 

 

Sjá fréttatilkynninguna á heimasíðu Kauphallar Íslands.

 

Sjá ársreikninga Félagsbústaða hf. fyrir árið 2010.

 

Sjá lykiltölur í ársuppgjöri ársins 2010.