Fréttatilkynningar


Félagsbústaðir gefa út fyrstu félagslegu skuldabréfin á Íslandi

Félagsbústaðir hafa gefið út svonefnd félagsleg skuldabréf, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Skuldabréfaflokkurinn, FB100366 SB, er verðtryggður til 47 ára og ber einfalda ábyrgð Reykjavíkurborgar. Alls voru 6.400 milljónir að nafnvirði seldar í lokuðu útboði á ávöxtunarkröfunni 1,90% og verður óskað eftir töku flokksins til viðskipta á Sustainable Bond markaði Nasdaq Iceland. Tilgangur útgáfunnar er meðal annars að fjármagna frekari fjárfestingar í leiguhúsnæði á vegum félagsins, en stefnt er að því að fjölga íbúðum Félagsbústaða um rúmlega 500 fram til ársins 2022.

Félagsleg skuldabréf (e. Social Bonds) eru skuldabréf sem gefin eru út til að fjármagna sérstök verkefni sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Einn helsti hvatinn að útgáfu slíkra skuldabréfa er vaxandi krafa fjárfesta um samfélagslega ábyrga fjárfestingakosti.

Félagsbústaðir settu sér fyrr á þessu ári félagslegan skuldabréfaramma um þessa útgáfu (e. Reykjavik Social Housing Social Bond Framework) sem fylgir alþjóðlegum viðmiðum um félagsleg skuldabréf (e. Social Bond Principles) gefnum út af ICMA, Alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði. Ramminn hefur hlotið óháða vottun (e. second opinion) frá Sustainalytics sem er leiðandi aðili í slíkri vottunum á heimsvísu. Í vottuninni segir m.a. að rammi Félagsbústaða sé traustur, trúverðugur og áhrifamikill, og að hann samræmist öllum fjórum meginþáttum alþjóðalegra viðmiða um félagsleg skuldabréf.

Í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Félagsbústaðir eru hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis í eigu Reykjavíkurborgar. Félagið er stærsti eigandi félagslegs húsnæðis á landinu og um leið stærsta leigufélag landsins. Í lok árs 2018 áttu Félagsbústaðir 2654 íbúðir og hefur þeim fjölgað um 400 frá árinu 2014.

Aðgengi að tryggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði telst til grundvallar mannréttinda og er lykilatriði þegar kemur að efnahagslegu heilbrigði samfélagsins. Í stöðuskýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem gefin var út hér á landi á síðasta ári, var aukið framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði skilgreint sem eitt þeirra verkefna sem vinna þyrfti að á Íslandi. Slíkt húsnæði stuðlar að betri heilsu og efnahag ásamt auknum tækifærum einstaklinga til félagslegrar þátttöku. Félagslegar leiguíbúðir tryggja fólki með lágar tekjur öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði sem kann að vera erfitt að finna á einkamarkaði.

Stefna Reykjavíkurborgar er að 5% alls leiguhúsnæðis í borginni séu félagslegar leiguíbúðir á hagstæðum kjörum. Reykvíkingar eru um 36% Íslendinga en þeir greiða að jafnaði hærra hlutfall af launum sínum til húsnæðis en aðrir landsmenn. Því er enn ríkari þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði á hagstæðum kjörum í Reykjavík.

Fossar markaðir höfðu umsjón með útgáfu félagslegu skuldabréfanna fyrir hönd Félagsbústaða. CIRCULAR Solutions veitti ráðgjöf við undirbúning og gerð rammans um félagsleg skuldabréf. Lagahvoll veitti félaginu lögfræðilega ráðgjöf.

Nánari upplýsingar:

Sigrún Árnadóttir
Framkvæmdastjóri Félagsbústaða
Sími: 520 1500
sigrun@felagsbustadir.is

Andri Guðmundsson
Framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar
Fossar markaðir hf.
Sími: +46 72 567 6666
andri.gudmundsson@fossarmarkets.com

Vegna umræðu um lækkun húsnæðisstuðnings hjá Félagsbústöðum

Félagsbústaðir vilja árétta að ákvarðanir um húnæðisstuðning eru ekki teknar hjá Félagsbústöðum eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga.
Lög um húsnæðisbætur nr. 75/2106 hafa það að markmiði að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Greiðslur húsnæðisbóta koma frá ríkinu. Sveitarfélögum er einnig skylt að veita sérstakan húsnæðisstuðning sbr. 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga sbr.:
„Sveitarfélög skulu veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur. … Ráðherra skal, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna um framkvæmd stuðnings skv. 2. og 3. mgr. ásamt viðmiðunarfjárhæðum.“
Greiðslur húsnæðisbóta til leigjenda Félagsbústaða koma annars vegar frá Íbúðalánasjóði vegna almennra húsnæðisbóta og hinsvegar frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar vegna sérstæks húsnæðisstuðnings.
Þar sem húsnæðisbætur eru tekjutengdar hafði nýleg leiðrétting sem snýr að útreikningi örorkubóta frá Tryggingarstofnun bein áhrif á þær. Húsnæðisbætur eru greiddar til leigjenda út um allt land.
Félagsbústaðir hafa upplýst leigjendur sína um áhrif leiðréttingarinnar á vefsvæði sínu. http://felagsbustadir.is/upplysingar-til-leigjenda-vegna-serstaks-husnaedisstudnings/.

Árshlutareikningur 30.06.2019

Félagsbústaðir – Árshlutareikningur 30.06.2019

Stjórn Félagsbústaða hf. samþykkti árshlutareikning  30.06. 2019 á fundi sínum í dag. Helstu kennitölur reikningsins eru:

  • Rekstrartekjur tímabilsins námu 2.321 millj.kr.
  • Afkoma tímabilsins fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 473 millj.kr. eða 50,4% af rekstrartekjum
  • Matshækkun fjárfestingaeigna fyrir tímabilið nam 3.386 millj.kr.
  • Virði fjárfestingareigna í lok tímabilsins er 88.477 millj.kr.
  • Eigið fé í lok tímabilsins er 45.876 millj.kr.
  • Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins er 51,2%
  • Vaxtaberandi skuldir í lok tímabils nema 41.589 millj.kr.

Félagsbústaðir eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og fylgja þeim reglum sem gilda um skráð félög. Samþykktir félagsins kveða einnig á um fyrirkomulag ýmissa þátta í starfseminni og eru þær aðgengilegar á vefsíðu þess ásamt þeim lögum sem gilda um félagið.

Rekstur og afkoma

Rekstrartekjur Félagsbústaða á öðrum ársfjórðungi 2019 námu 2.321 millj.kr. og jukust um 7,5% milli ára en þar munar mest um verðbólguhækkun og stækkun eignasafnsins.  Rekstur og viðhald eigna lækkar um 40 m.kr. eða um 3,7% á milli ára. Rekstrarhagnaðarhlutfall (EBIT%) er hærra en á fyrra ári eða 50,4% samanborið við 44,7% fyrir sama tímabil 2018.

Eignasafn og efnahagur

Heildareignir félagsins námu 89.452 millj.kr. í lok tímabilsins en þær jukust um 6,9% frá ársbyrjun. Fjárfestingareignir jukust um 6,3% eða 5.274 millj.kr., fjárfest var fyrir 1.809 millj.kr. og matsbreyting nam 3.465 millj.kr. Tekin voru ný langtímalán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 3.000 millj.kr. en stofnframlög frá ríki og borg námu 304 millj.kr. á tímabilinu. Eigið fé hækkaði um ríflega 3.235 millj.kr. frá ársbyrjun 2019. Eiginfjárhlutfall í lok tímabils var 51,2% en 51,9% í lok árs 2018. Vísað er til ársreikningsins um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum.

Skuldabréfaútboð

Félagsbústaðir munu á næstunni gefa út í fyrsta skipti svonefnd samfélagsskuldabréf. Tilgangur útgáfunnar er meðal annars að fjármagna frekari fjárfestingar í leiguhúsnæði á vegum félagsins, en stefnt er að því að fjölga íbúðum Félagsbústaða um a.m.k. 520 fram til ársins 2022.

Þróun eignasafns

Félagsbústaðir keyptu 22 fasteignir á fyrstu 6 mánuðum 2019 en félagið áformar að fjölga leigueiningum um 125 á árinu. Það verður aðallega gert með kaupum á nýjum íbúðum á almennum markaði.

Nánari upplýsingar veitir:

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri, sigrun@felagsbustadir, sími 520 1500