Saga Félagsbústaða

Formleg stofnun 1996

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í desember 1996 að stofna hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af skýrslu sem Þórarinn Magnússon, verkfræðingur, hafði unnið fyrir borgina að beiðni borgarstjóra um rekstrarform félagslegs leiguhúsnæðis í borginni og var starfshópi, sem áður hafði unnið að sölu borgareigna falið að undirbúa stofnun félagsins.

Félagsbústaðir hf. voru stofnaðir 8. apríl 1997 og var byggt á norrænni reynslu af sambærilegum rekstri . Fyrirtækið er nær alfarið í eigu borgarsjóðs, en Velferðarsvið Reykjavíkur er skráð fyrir óverulegum hlut. Þrír stjórnarmenn sitja í stjórn fyrirtækisins. Rekstur hófst 16. júní sama ár með kaupum á 827 íbúðum af Reykjavíkurborg á markaðsverði á þeim tíma. Frá ársbyrjun 1998 tóku Félagsbústaðir hf. við öllum rekstri og umsýslu almennra félagslegra leiguíbúða Reykjavíkurborgar, auk tengdra verkefna sem áður voru unnin á vegum byggingardeildar borgarverkfræðings, Félagsþjónustunnar og ýmissra deilda í Ráðhúsinu. Húsnæðisdeild Félagsþjónustunnar var jafnframt lögð niður frá þeim tíma.

 

Aðskilnaður rekstrar félagslegs húsnæðis frá öðrum rekstri

Megintilgangur með stofnun fyrirtækisins var að skilja rekstur félagslegra leiguíbúða Reykjavíkurborgar frá öðrum rekstri borgarinnar og bæta fjármálalega og faglega umsýslu rekstrarins. Jafnframt var ætlunin að byggja upp öflugt þjónustufyrirtæki á húsnæðismarkaði með sérþekkingu á rekstri fasteigna, um leið og kostnaður, árangur og ábyrgð yrði sýnilegri en áður. Hlutverk borgarinnar breytist úr því að vera beinn rekstaraðili í það að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og veita nuðsynlegt aðhald að rekstri og fjárhagsstöðu rekstraraðilans.

 • Velferðarsvið Reykjavíkur annast úthlutun íbúðanna, sem eru leigðar út til tekjulágra einstaklinga og fjölskyldna sem uppfylla skilyrði um leigurétt í samræmi við reglur um félagslegt húsnæði og ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.
 • Frá árinu 1999 fjölgaði íbúðum í eigu Félagsbústaða um 50-100 íbúðir árlega með kaupum á fasteignamarkaði eða nýbyggingum en auk þess keypti félagið af Reykjavíkurborg 57 þjónustuíbúðir aldraðra og 101 félagslega kaupleiguíbúð. Reykjarvíkurborg lagði fram 10% af stofnkostnaði íbúða í formi árlegrar hlutafjáraukningar en kaupin eru að öðru leyti fjármögnuð með húsnæðislánum frá Íbúðalánasjóði.
 • Eftir bankahrunið haustið 2008 hægði verulega á íbúðakaupum í takt við minnkandi eftirspurn og styttri biðlista eftir félagslegu húsnæði. Fjölgun íbúða hefur því nánast staðið í stað frá þeim tíma ef frá er talið árið 2011 þegar félagið tók yfir sambýli og búsetukjarna í tengslum við tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Síðustu misseri hafa biðlistar þó verið að lengjast þar sem aukin þörf er á félagslegu húsnæði og sífellt erfiðara er fyrir félagið að finna nýjar íbúðir sem henta vel til útleigu hvað varðar gæði, staðsetningu, stærð og verð.
 • Frá stofnun hafa Félagsbústaðir þróast í samræmi við upphaflegar áætlanir. Í upphafi voru uppi ýmsar efasemdir um ágæti þessa fyrirkomulags á húsnæðisrekstri borgarinnar, en með tímanum hefur náðst ágæt sátt um fyrirtækið.
  Félagið starfar í þágu almannaheilla og skal reksturinn vera sjálfbær. Raunkostnaður við rekstur íbúða er greiddur niður um þriðjung af borgarsjóði sem færist sem fjárhagsleg aðstoð við leigjendur í gegnum Velferðarsvið Reykjavíkur.

Áhersla á gott viðhald 

 • Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á viðhald íbúða og útlit húsa, lóða og sameigna. Samfara bættu útliti og ástandi eignanna hefur umgengni um þær farið batnandi. Skil á leigugreiðslum hafa einnig batnað mjög frá því að fyrirtækið tók við rekstri leiguíbúða af Reykjavíkurborg, eða frá því að vera um 75% af leigutekjum upp í um 98%.
  Félagsbústaðir eiga aðild að samtökunum Þak yfir höfuðið, sem eru regnhlífarsamtök aðila í félagslegum íbúðarekstri. Starfssemi samtakanna er reyndar takmörkuð, en Félagsbústaðir hf. eru langstærsti aðilinn í því samstarfi. Þá á fyrirtækið aðild að norrænu samtökunum NBO (Nordiska Kooperativa och Allmännyttiga Bostadsföretags Organisation) en á vegum samtakanna eru reknar samtals um 2,5 milljónir íbúða. Einnig eru Félagsbústaðir aðilar að Vistbyggðarráð (Nordic Built) sem er félag og samstarfsvettvangur um vistvæna þróun manngerðs umhverfis á Íslandi.

Stærsta leigufélag landsins 

 • Félagsbústaðir eru stærsti aðilinn í rekstri íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Af öðrum stórum aðilum í svipuðum rekstri má nefna Búseta, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag Námsmanna og Öryrkjabandalag Íslands. Þá hafa verið stofnuð sambærileg fyrirtæki um rekstur fasteigna á vegum sveitarfélaga á Akureyri, Reykjanesbæ og Ísafjarðarbæ. Auk þess sem fyrirtæki á markaði reka umsvifamikill eignasöfn til útleigu.
  Starfsemi fyrirtækisins fer fram í þremur starfsdeildum: fjármála- þjónustu og framkvæmdadeild. Skrifstofa fyrirtækisins er til húsa að Hallveigarstíg 1, Reykjavík en auk þess er lageraðstaða, verkstæði og geymsla við Ártúnshöfða. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 22 starfsmenn, þar af 8 í fjármáladeild, 3 í þjónustudeild og 11 í framkvæmdadeild auk framkvæmdastjóra.

Markmið og gildi Félagsbústaða eru:

 • Að stefna skuli að breytingu á rekstri félagslegs leiguhúsnæðis í borginni í líkingu við það sem tíðkast í sambærilegum rekstri í Vestur-Evrópu.
 • Að beita í rekstrinum faglegum vinnubrögðum í þeim tilgangi að halda leiguverði í lágmarki og bæta þjónustu við leigjendur.
 • Að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf þeirra sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.
 • Félagsbústaðir hf. starfa í þágu almannaheilla.
 • Rekstur Félagsbústaða hf. verði sjálfbær (non profit).