Saga Félagsbústaða

 • Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í desember 1996 að stofna hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum Reykjavíkurborgar. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af skýrslu sem Þórarinn Magnússon, verkfræðingur, hafði unnið fyrir borgina að beiðni borgarstjóra um rekstrarform félagslegs leiguhúsnæðis í borginni og var starfshópi, sem áður hafði unnið að sölu borgareigna falið að undirbúa stofnun félagsins.
 • Félagsbústaðir hf. voru stofnaðir 8. apríl 1997 og var byggt á norrænni reynslu af sambærilegum rekstri . Fyrirtækið er nær alfarið í eigu borgarsjóðs, en Velferðarsvið Reykjavíkur er skráð fyrir óverulegum hlut. Þrír menn sitja í stjórn fyrirtækisins og er núverandi formaður Árni Geir Pálsson. Rekstur hófst 16. júní sama ár með kaupum á 827 íbúðum af Reykjavíkurborg á markaðsverði á þeim tíma. Frá ársbyrjun 1998 tóku Félagsbústaðir hf. við öllum rekstri og umsýslu almennra félagslegra leiguíbúða Reykjavíkurborgar, auk tengdra verkefna sem áður voru unnin á vegum byggingardeildar borgarverkfræðings, Félagsþjónustunnar og ýmissra deilda í Ráðhúsinu. Húsnæðisdeild Félagsþjónustunnar var jafnframt lögð niður frá þeim tíma.
 • Megintilgangur með stofnun fyrirtækisins var að skilja rekstur félagslegra leiguíbúða Reykjavíkurborgar frá öðrum rekstri borgarinnar og bæta fjármálalega og faglega umsýslu rekstrarins. Jafnframt var ætlunin að byggja upp öflugt þjónustufyrirtæki á húsnæðismarkaði með sérþekkingu á rekstri fasteigna, um leið og kostnaður, árangur og ábyrgð yrði sýnilegri en áður. Hlutverk borgarinnar breytist úr því að vera beinn rekstaraðili í það að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og veita nuðsynlegt aðhald að rekstri og fjárhagsstöðu rekstraraðilans.
 • Velferðarsvið Reykjavíkur annast úthlutun íbúðanna, sem eru leigðar út til tekjulágra einstaklinga og fjölskyldna sem uppfylla skilyrði um leigurétt í samræmi við reglur um félagslegt húsnæði og ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.
  Í árslok 2015 áttu Félagsbústaðir hf. 2.326 íbúðir, samtals tæplega 170 þús. m². Meðalstærð íbúða var 75 m². Nær allar íbúðirnar eru staðsettar í fjölbýlishúsum, en þó nokkrar í raðhúsum og örfáar í einbýli. Tæplega helmingur íbúðanna er tveggja herbergja og rúmlega fjórðungur þriggja herbergja.
 • Frá árinu 1999 fjölgaði íbúðum í eigu Félagsbústaða um 50-100 ibúðir árlega með kaupum á fasteignamarkaði eða nýbyggingum en auk þess keypti félagið af Reykjavíkurborg 57 þjónustuíbúðir aldraðra og 101 félagslega kaupleiguíbúð. Reykjarvíkurborg lagði fram 10% af stofnkostnaði íbúða í formi árlegrar hlutafjáraukningar en kaupin eru að öðru leyti fjármögnuð með húsnæðislánum frá Íbúðalánasjóði.
 • Eftir bankahrunið haustið 2008 hægði verulega á íbúðakaupum í takt við minnkandi eftirspurn og styttri biðlista eftir félagslegu húsnæði. Fjölgun íbúða hefur því nánast staðið í stað frá þeim tíma ef frá er talið árið 2011 þegar félagið tók yfir sambýli og búsetukjarna í tengslum við tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Síðustu misseri hafa biðlistar þó verið að lengjast þar sem aukin þörf er á félagslegu húsnæði og sífellt erfiðara er fyrir félagið að finna nýjar íbúðir sem henta vel til útleigu hvað varðar gæði, staðsetningu, stærð og verð. Í burðarliðnum eru þó úrbætur, í drögum að eigendastefnu fyrir félagið er gert ráð fyrir verulegri uppbyggingu á vegum félagsins eða tengdu félagi á næstu árum á þéttingarreitum í borginni. Þar verður um að ræða blönduð íbúðarhús sem samanstanda af leiguíbúðum sem leigðar verða til einstaklinga og fjölskyldna úr ólíkum þjóðfélagshópum.
 • Þar sem af er hefur fyrirtækið þróast í samræmi við upphaflegar áætlanir. Í upphafi voru uppi ýmsar efasemdir um ágæti þessa fyrirkomulags á húsnæðisrekstri borgarinnar, en með tímanum hefur náðst ágæt sátt um fyrirtækið.
  Félagið starfar í þágu almannaheilla og skal reksturinn vera sjálfbær. Raunkostnaður við rekstur íbúða er greiddur niður um þriðjung af borgarsjóði sem færist sem fjárhagsleg aðstoð við leigjendur í gegnum Velferðarsvið Reykjavíkur.
 • Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á viðhald íbúða og útlit húsa, lóða og sameigna. Samfara bættu útliti og ástandi eignanna hefur umgengni um þær farið batnandi. Skil á leigugreiðslum hafa einnig batnað mjög frá því að fyrirtækið tók við rekstri leiguíbúða af Reykjavíkurborg, eða frá því að vera um 75% af leigutekjum upp í um 98%.
  Félagsbústaðir eiga aðild að samtökunum Þak yfir höfuðið, sem eru regnhlífarsamtök aðila í félagslegum íbúðarekstri. Starfssemi samtakanna er reyndar takmörkuð, en Félagsbústaðir hf. eru langstærsti aðilinn í því samstarfi. Þá á fyrirtækið aðild að norrænu samtökunum NBO (Nordiska Kooperativa och Allmännyttiga Bostadsföretags Organisation) en á vegum samtakanna eru reknar samtals um 2,5 milljónir íbúða. Einnig eru Félagsbústaðir aðilar að Vistbyggðarráð (Nordic Built) sem er félag og samstarfsvettvangur um vistvæna þróun manngerðs umhverfis á Íslandi.
 • Félagsbústaðir eru stærsti aðilinn í rekstri íbúðarhúsnæðis á Íslandi. Af öðrum stórum aðilum í svipuðum rekstri má nefna Búseta, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag Námsmanna og Öryrkjabandalag Íslands. Þá hafa verið stofnuð sambærileg fyrirtæki um rekstur fasteigna á vegum sveitarfélaga á Akureyri, Reykjanesbæ og Ísafjarðarbæ.
  Starfsemi fyrirtækisins fer fram í þremur starfsdeildum: fjármála- þjónustu og framkvæmdadeild. Skrifstofa fyrirtækisins er til húsa að Hallveigarstíg 1, Reykjavík en auk þess er lageraðstaða, verkstæði og geymsla við Ártúnshöfða. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 22 starfsmenn, þar af 8 í fjármáladeild, 3 í þjónustudeild og 11 í framkvæmdadeild auk framkvæmdastjóra.