Framkvæmdadeild Félagsbústaða sér um viðhald fasteigna. 

Ef leigjendur verða varir við bilanir eða vilja benda á nauðsynlegar viðgerðir skal tilkynna slíkt á símatíma viðhaldsþjónustu, alla virka daga milli kl.13:00-15:00 í síma 520-1550

Hvernig er viðhaldi eigna Félagsbústaða háttað?

 • Á hverju hausti er gerð framkvæmdaáætlun varðandi viðhald fyrir næsta ár. Það tekur bæði til ytra byrðis húsa og innan húss. Ákveðið fjármagn er veitt til þessara mála. Reynt er að forgangsraða viðhaldi mannvirkja eins og kostur er en oft koma upp ófyrirséð atriði sem ekki þola bið. Þau mál ganga fyrir og getur því þurft að hliðra til áformuðum framkvæmdum.

Hvaða viðhaldsþætti eiga leigjendur að annast sjálfir?

 • Leigjendur eiga að annast minniháttar viðhaldsþætti sem orsakast sökum slits eða notkunar íbúa. T.d. ljósaperur, sturtuhaus og -barka, úðara, sigti í krana og lykla að íbúð, póstkassa eða geymslu.

Hver annast lóðaumhirðu á lóðum og sameign?

 • Félagsbústaðir annast sjálfir lóðaumhirðu á lóðum og í sameign í þeim fjölbýlishúsum sem fyrirtækið á að fullu. Viðkomandi húsfélag annast viðhald á lóðum og sameign þar sem Félagsbústaðir eru í minnihluta.
 • Leigjandi ber sjálfur ábyrgð á almennri lóðaumhirðu í einkagarði ef hann er fyrir hendi, þ.e slá gras, hreinsa beð, klippa tré og gróður  þannig að garðurinn líti snyrtilega út. Sé því ekki sinnt áskilja Félagsbústaðir sér rétt til að láta framkvæma viðhald  á kostnað leigjanda.

Hvert eiga leigjendur að leita í neyðartilvikum eða vegna viðgerða sem nauðsynlegt er að bregðast við utan opnunartíma Félagsbústaða?

 • Lögregla, slökkvilið og neyðarþjónustur veita íbúum borgarinnar upplýsingar um hvert hægt er að leita eftir aðstoð.

Hversu langt líður á milli þess að íbúð er máluð?

 • Íbúðir eru að jafnaði málaðar á sjö til átta ára fresti og frá því að leigjendur flytja inn nema að aðrar ástæðir komi til, s.s. skemmdir, staðbundnar aðstæður osfrv. Matsmenn Félagsbústaða ákveða hvort og hvenær þurfi að mála íbúð.

Mega leigjendur gera breytingar á íbúð Félagsbústaða?

 • Samkvæmt húsaleigusamningi mega leigjendur ekki gera neinar breytingar á íbúð Félagsbústaða nema með leyfi Félagsbústaða.

Hvert skal leita vegna framkvæmda á vegum húsfélags þar sem Félagsbústaðir eru í minnihluta?

 • Félagsbústaðir veita iðulega samþykki í stjórn húsfélags fyrir endurbótum á sameign. Ef húsfélag stendur fyrir endurbótum og framkvæmdum við hverja íbúð fyrir sig skal tilkynna Félagsbústöðum um verklýsingu og kostnað áður en þær hefjast. Leita skal til framkvæmdardeildar eða hringja í viðhaldsþjónustu frá kl. 13:00-15:00 í síma 520-1550 alla virka daga.

Hvað er gert við númerslausa bíla á bílastæðum við fjölbýlishús félagsins?

 • Samkvæmt húsreglum eru bílastæðin eingöngu ætluð nothæfum bílum og eru númerslausir bílar ásamt öðrum fylgihlutum (kerrur, tjaldvagnar, fellihýsi o.fl.) fjarlægð. Er það gert eftir ákveðnu verklagi í samstarfi við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar, umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar og dráttarbílaþjónustu Vöku. Settir eru miðar á númerslausa bíla þar sem veittur er 10 daga frestur til að koma bílnum af bílastæðinu, en að þeim fresti loknum eru bílar dregnir á brott á kostnað bíleigenda.

Merkja Félagsbústaðir bílastæði fyrir hverja íbúð?

 • Nei. Á bílastæðum við fjölbýlishús sem félagið á í fullri eigu eru stæðin almennt ekki merkt íbúðum. Ástæðan er kostnaður við merkingar, verri raunnýting stæða o.fl. Þar sem Félagsbústaðir eiga stakar íbúðir er því fyrirkomulagi fylgt sem er viðhaft á hverjum stað fyrir sig eftir ákvörðun þess húsfélags.

Hvernig er með P-stæði og sérmerkingar á þeim við fjölbýlishús félagsins?

 • Félagsbústaðir reyna að tryggja nægjanlegt framboð á P-stæðum miðað við fjölda leigjenda með P-skírteini og einnig gestkomandi. Varðandi fjölgun á P-stæðum skal hafa samband við viðhaldsþjónustu í síma 520-1550. Sérmerking á P-stæði er háð mati Velferðarsviðs á sérþörf P-skírteinishafa og skal sækja formlega um slíkt til félagsráðgjafa eða viðkomandi þjónustumiðstöðvar.