Umhverfismál

Umhverfisstefna Félagsbústaða og umhverfið

Félagsbústaðir hf. hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að vernda umhverfið komandi kynslóðum til hagsbóta.

Fyrirtækið vill stuðla að sjálfbærri þróun náttúru, samfélags og efnahags og vera í fararbroddi meðal íslenskra fyrirtækja hvað þetta varðar. Fyrirtækið mun þrýsta á viðskiptamenn sína og verktaka að stefna að sama marki.

Félagsbústaðir hf. leggja áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir og stöðugar úrbætur í umhverfisstarfi, með sérstakri áherslu á eftirfarandi þætti:

 1. Endurnýjanlegar auðlindir: Félagsbústaðir hf. munu leitast við að nota endurnýjanlegar auðlindir og náttúruleg efni í starfsemi sinni og hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi við fjárfestingar og innkaup.
 2. Hönnun: Félagsbústaðir hf. munu hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við hönnun mannvirkja og útisvæða á vegum fyrirtækisins, með sérstakri áherslu á aðstöðu fyrir íbúa og gesti sem kjósa að ganga eða hjóla í stað þess að nota einkabíla.
 3. Orkumál: Félagsbústaðir hf. leggja áherslu á að fylgjast vel með orkunotkun og leita leiða til að draga úr henni, bæði á hönnunarstigi og í rekstri.
 4. Úrgangsmál: Félagsbústaðir hf. leggja áherslu á að draga úr myndun úrgangs í allri starfsemi á vegum fyrirtækisins. Lögð er áhersla á endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem engu að síður fellur til. Jafnframt verða íbúar í húsnæði fyrirtækisins hvattir og studdir til að lágmarka úrgang og vinna að endurnýtingu og endurvinnslu.
 5. Fráveitumál: Reynt verður að fyrirbyggja að mengandi efni berist í fráveituvatn frá starfsemi Félagsbústaða hf.
 6. Hávaði og loftmengun: Kappkostað verður að tryggja íbúum í húsnæði Félagsbústaða hf. gott umhverfi til búsetu og útivistar, þar sem hávaði og loftmengun er í lágmarki. Sérstök áhersla verður lögð á að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í tengslum við starfsemi fyrirtækisins.
 7. Ljósmengun: Við uppsetningu og endurnýjun útilýsingar verður þess gætt að ljósmengun verði í lágmarki.
 8. Miðlun upplýsinga: Félagsbústaðir hf. leggja áherslu á greiða miðlun upplýsinga um umhverfisstarf fyrirtækisins og opin skoðanaskipti við alla hagsmunaaðila. Í þessum tilgangi mun fyrirtækið árlega birta skýrslu um umhverfisþætti í starfseminni.
 9. Umhverfisfræðsla: Félagsbústaðir hf. munu stuðla að því að stjórnendur þess, starfsmenn og íbúar í húsnæði fyrirtækisins hafi greiðan aðgang að fræðslu um umhverfismál.
 10. Staðardagskrá 21: Félagsbústaðir hf. munu vinna með Reykjavíkurborg, og eftir atvikum öðrum sveitarfélögum, að uppbyggingu og eftirfylgni langtímaáætlunar um sjálfbæra þróun, Staðardagskrár 21, í samræmi við samþykktir Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992.
 11. Lög og reglur: Félagsbústaðir hf. vilja tryggja að öll starfsemi fyrirtækisins sé í samræmi við texta og tilgang laga, reglugerða, samninga og annarra samþykkta um verndun umhverfisins. Í þessari viðleitni verður einnig lögð áhersla á að fylgjast með væntanlegum breytingum á umhverfislöggjöf og taka tillit til þeirra við gerð langtímaáætlana.
 12. Samgöngumál:  Félagsbústaðir hf. leggja áherslu á að fylgja samgöngustefnu Reykjavíkurborgar og þeirra grænu skrefum í samgöngum. Að því marki verða í boði samgöngusamningar fyrir starfsmenn og markmið félagsins er að vinnubílar séu sem vistvænstir.

Fagskýrslur til prentunar ( PDF )