Við tryggjum framboð af félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík

Í öllum hverfum borgarinnar eru félagslegar leiguíbúðir sem ætlaðar eru fjölskyldum og einstaklingum undir tilteknum eigna- og tekjumörkum, auk leiguíbúða fyrir aldraða og fólk með fötlun.

Um Félagsbústaðir

Mínar síður

Nú geta allir leigjendur Félagsbústaða skráð sig á fljótlegan og einfaldan hátt inn á þjónustugáttina Mínar síður. Þar er hægt að nálgast upplýsingar um leigusamninga, séð leigureikninga og sent inn viðhaldsbeiðnir.

Spurt og svarað

Svör við algengustu spurningum sem okkur berast

Spurt og svarað

Hafðu samband

Sendu okkur póst og við svörum eins fljótt og við getum

Hafðu samband

Hvernig leigi ég íbúð hjá Félagsbústöðum?

1. Umsókn

Umsækjandi sem uppfyllir skilyrði sækir um hjá miðstöð í sínu hverfi.

2. Úthlutun

Umsækjanda er úthlutað íbúð samkvæmt faglegu mati úthlutunarteymis.

3. Skoðun íbúðar

Umsækjandi skoðar íbúðina og ákveður hvort hann þiggur hana.

4. Afhending

Umsækjandi skrifar undir leigusaming á skrifstofu Félagsbústaða í Þönglabakka 4 og fær lykla afhenta.

Svör við algengustu spurningum sem okkur berast

Lagalegur grundvöllur fyrir vinnslu persónuupplýsinga

Félagsbústaðir vinna persónuupplýsingar byggt á eftirfarandi almennum heimildum samkvæmt persónuverndarlögum:

  • á grundvelli samþykkis einstaklinga, sbr. 1. tl. 1. mgr. 9. gr. Þessi heimild á einkum við í tengslum við markaðsetningu Félagsbústaða. Í þeim tilvikum veitir félagið einstaklingi nánari upplýsingar um þá tilteknu vinnslu persónuupplýsinga sem samþykkið nær til. Einstaklingur getur hvenær sem er dregið til baka samþykki sitt fyrir vinnslu persónuupplýsinga sinna og er þá þeirri vinnslu sem samþykkið nær til hætt. Afturköllun samþykkis hefur þó ekki áhrif á vinnslu persónuupplýsinga fram að afturkölluninni, sbr. 3. mgr. 10. gr. persónuverndarlaga.
  • til að uppfylla samningsskyldu, sbr. 2. tl. 1. mgr. 9. gr. Þessi heimild á einkum við vinnslu persónuupplýsinga í þágu viðskiptasambands félagsins við leigjendur, s.s. vegna samnings um úthlutaða íbúð eða vegna lögfræðiinnheimtu þar sem leiga er ekki greidd.
  • til að uppfylla lagaskyldu, sbr. 3. tl. 1. mgr. 9. gr. Þessi heimild á einkum við í tengslum við gögn sem falla undir lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn
  • Til að vernda lögmæta hagsmuni félagsins, sbr. 6. tl. 1. mgr. 9. gr. Þessi heimild á einkum við í tengslum við myndavélaeftirlit á skrifstofum okkar, í félagslegu leiguhúsnæði okkar og í þjónustuíbúðum okkar í eigna- og öryggisvörsluskyni, ásamt innheimtu vanskilakrafna.

Hversu lengi geymum við persónuupplýsingar um þig?

Félagsbústaðir geyma persónuupplýsingar eins lengi og þörf krefur samkvæmt þeim lögum og reglum sem við eiga í starfsemi félagsins, eða eins lengi og lögmætir hagsmunir félagsins krefjast og málefnaleg ástæða gefur tilefni til. Sem dæmi er myndefni úr öryggismyndavélum varðveitt í að hámarki 30 daga, að þeim tímaliðnum er myndefninu sjálfkrafa eytt nema nauðsyn krefji til að varðveita það til að geta stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur, einkum í dómsmáli.

Félagið hefur afhendingarskyldu á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Það þýðir að félaginu er óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema með lagaheimild eða sérstakri heimild þjóðskjalavarðar. Gögnum er skilað til Borgarskjalasafns að ákveðnum tíma liðnum samkvæmt reglum þar um.

Öryggi persónuupplýsinga og tilkynning um öryggisbrest

Öryggi í vinnslu persónuupplýsinga er Félagsbústöðum mikilvægt og höfum við gripið til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra öryggisráðstafana til að tryggja vernd persónuupplýsinga þinna í takt við stefnu okkar um öryggi, þ.m.t. með viðeigandi aðgangsstýringum.

Komi upp öryggisbrestur sem varðar þínar persónuupplýsingar, og teljist slíkur brestur hafa í för með sér mikla áhættu fyrir frelsi og réttindi þín, munum við tilkynna þér um það án ótilhlýðilegrar tafar. Í þessum skilningi telst öryggisbrestur atburður sem leiðir til þess að persónuupplýsingar þínar glatist eða eyðist, þær breytist, séu birtar eða óviðkomandi fái aðgang að þeim í leyfisleysi.

Frá hverjum safna Félagsbústaðir þínum persónuupplýsingum?

Við söfnum persónuupplýsingum frá þér og í vissum tilvikum eru persónuupplýsingar fengnar með sjálfvirkum hætti, t.d. við notkun heimasíðu okkar. Félagsbústaðir vinna fyrst og fremst með persónuupplýsingar sem veittar eru frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sem sér um úthlutun félagslegra leiguíbúða Félagsbústaða. Félagsbústaðir kunna einnig að fá upplýsingar frá öðrum aðilum, s.s. lögmönnum, lögreglu, heilbrigðisstofnunum og einstaklingum.

Þarf ég að velja mér raforkusala?

Já, þú þarft að velja þér raforkusala. Félagsbústaðir tilkynna þig sem nýjan notanda af rafmagni í íbúð við undirritun leigusamnings. Þú þarft svo að velja þér söluaðila rafmagns innan 30 daga. Sé það ekki gert loka Veitur fyrir rafmagnið með tilheyrandi óþægindum. Slíkt gerist þó ekki án alls fyrirvara.

Þarf ég að þinglýsa leigusamningnum mínum?

Nei, þú þarft þess ekki. Félagsbústaðir eru undanskyldir þinglýsingum. Þú getur sótt um húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun án þess að hafa þinglýstan leigusamning þegar þú leigir hjá Félagsbústöðum.

Hvað er vísitölutrygging?

Leiguverð hjá Félagsbústöðum er vísitölutryggt. Það þýðir að leiga hækkar eða lækkar í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.  

Hagstofa Íslands reiknar út vísitölu neysluverðs samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Hún er algengur mælikvarði á verðbólgu og breytingu á útgjöldum heimilanna í landinu.

Hvernig fara skil á íbúðum fram við andlát leigjanda?

Vinsamlega láttu okkur vita símleiðis um andlát eins fljótt og mögulegt er og hvenær megi eiga von á því að íbúðinni verði skilað.

Almennt er þriggja mánaða uppsagnarfrestur á leigu en við reynum eftir fremsta megni að vera sveigjanleg og koma til móts við aðstandendur við skil á íbúðum við andlát. Leiga er greidd fyrir þann mánuð sem lyklum er skilað á skrifstofu Félagsbústaða.

Formleg skil eiga sér stað á skrifstofunni okkar þar sem þú fyllir út skilablað með helstu upplýsingum, undirritar og afhendir lyklana að íbúðinni. Mikilvægt er að íbúðin sé tæmd alveg og þrifin áður en henni er skilað, annars geta aðstandendur átt von á því að krafa verði gerð í dánarbúið um kostnað sem hlýst af tæmingu og þrifum. Sjá nánari upplýsingar um frágang við skil íbúða hér.

Hvenær miðla Félagsbústaðir persónuupplýsingum þínum til þriðju aðila og af hverju?

Félagsbústaðir miðla einungis persónuupplýsingum til þriðju aðila þar sem slíkt er skylt samkvæmt lögum eða ef um er að ræða þjónustuveitanda sem ráðinn er af hálfu Félagsbústaða til þess að vinna fyrirfram ákveðna vinnu. Sem dæmi má nefna aðila sem sjá um upplýsingatækni- og fjarskiptaþjónustu. Í vissum tilvikum geta slíkir aðilar talist vera vinnsluaðilar og gera Félagsbústaðir þá vinnslusamning við viðkomandi aðila í samræmi við kröfur persónuverndarlaga.

Félagsbústaðir gætu einnig deilt persónuupplýsingum með þriðju aðilum þegar slíkt er nauðsynlegt til að vernda brýna hagsmuni félagsins, eins og við innheimtu á vanskilakröfu. 

Ef til þess kemur að vinnsluaðili vinni, þ.m.t. hýsi, gögn fyrir utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES svæðið), þá gæta Félagsbústaðir að því að lögmætur grundvöllur sé til staðar samkvæmt persónuverndarlögum.

Félagsbústaðir benda þér á að þegar þú ferð inn á eða hefur samband við okkur í gegnum samfélagsmiðlasíður okkar, þá gæti verið að veitendur samfélagmiðlaþjónustunnar fái aðgang að upplýsingum og hvetjum við þig til að kynna þér vel persónuverndaryfirlýsingar þeirra.

Hvað er þrifagjald?

Ef þrifum er ábótavant er þrifagjald að upphæð 85.000 krónur innheimt eftir skil íbúðar. Gjaldinu er ætlað að koma til móts við þann kostnað sem fellur til við alhliða hreingerningu framkvæmda af fagaðila.

Hvaða persónuupplýsingum safna Félagsbústaðir um þig?

Félagsbústaðir leggja áherslu á að vinna einungis þær persónuupplýsingar sem nauðsynlegar eru í samræmi við þann tilgang sem liggur að baki söfnun upplýsinganna. Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera safnað eftir því hvort þú ert sjálf/-ur í samskiptum við félagið eða hvort samskiptin eru fyrir hönd lögaðila. Vinnsla persónuupplýsinga fer samkvæmt framangreindu eftir eðlis þess sambands sem þú átt við Félagsbústaði.

Félagsbústaðir vinna, eins og við á hverju sinni,  einkum eftirfarandi persónuupplýsingar:

  • auðkennis- og samskiptaupplýsingar, s.s. nafn og kennitölu, heimilisfang, tölvupóst og símanúmer,
  • upplýsingar um tengsl einstaklinga við lögaðila sem eru í viðskiptasambandi við félagið, s.s. starfstitill og vinnustaður,
  • samskiptasaga, s.s. upplýsingar úr samskiptum sem þú velur að eiga við okkur, s.s. bréf, tölvupóstar, skilaboð í gegnum vefviðmót eða önnur samskipti,
  • greiðslu- og fjárhagsupplýsingar um einstaklinga sem eiga í leigu- eða viðskiptasambandi við félagið, s.s. upplýsingar um bankareikninga, virðisaukaskattsnúmer og dagsetningar á framkvæmdum eða mótteknum greiðslum og eftir atvikum vanskil,
  • tæknilegar upplýsingar, s.s. IP tölu,
  • stafræn fótspor, s.s. nethegðun,
  • myndefni úr upptökum öryggismyndavéla í og við skrifstofur okkar sem og við leiguhúsnæði og þjónustuíbúðir okkar.

Félagsbústaðir vinna persónuupplýsingar sem flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögunum, s.s. félagsleg- og heilsufarsleg málefni einstaklinga.

Rafræn vöktun öryggismyndavéla

Rafræn vöktun fer fram með öryggismyndavélum í og við ýmis íbúðarhúsnæði Félagsbústaða fyrir félagslegar leiguíbúðir í öryggis- og eignarvörsluskyni. Þeir einstaklingar sem heimsækja vöktuð íbúðarhúsnæði kunna því að vera teknir upp á mynd. Vinnsla á upplýsingum sem safnast með myndeftirliti byggir á lögmætum hagsmunum Félagsbústaða. Heimild til þessa er í 6. tl. 1. mgr. 9. gr. persónuverndarlaga.

Persónuupplýsingar sem verða til við notkun öryggismyndavéla verða einungis notaðar ef upp koma atvik er varða eignavörslu eða öryggi einstaklinga, s.s. þjófnaður, skemmdaverk eða slys. Þær má ekki afrita eða afhenda öðrum aðila, nema á grundvelli lagaheimildar, samþykki skráðra aðila eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar hverju sinni. Persónugreinanlegar myndupptökur eru því almennt ekki afhentar öðrum en lögreglu og þá ef um slys eða meintan refsiverðan verknað er að ræða. Þá kann myndupptökum jafnframt að vera miðlað í þeim tilgangi að Félagsbústaðir geti stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur. Í þeim tilvikum sem unnið er með myndefni í þeim tilgangi er, eins og nauðsyn krefur, heimilt að veita stjórnendum, lögmönnum og tryggingarfélagi Félagsbústaða og gagnaðila, auk dómstóla, aðgang að myndefninu.

Myndefni sem verður til við notkun öryggismyndavéla eyðist sjálfkrafa eftir að hámarki 30 daga nema nauðsyn krefji til að varðveita það til að geta stofnað, haft uppi og eftir atvikum varið réttarkröfur, einkum í dómsmáli, að því gefnu að lög heimili eða dómsúrskurður eða fyrirmæli þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir.

Þarf ég að leggja fram leigutryggingu?

Nei, þú þarft ekki að leggja fram leigutryggingu þegar þú skrifar undir leigusamning hjá Félagsbústöðum.

Réttindi þín?

Með fyrirvara um þau skilyrði sem nánar er fjallað um  persónuverndarlögum, átt þú rétt á að:

  • fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar félagið hefur skráð um þig og uppruna þeirra, sem og upplýsingar um hvernig unnið er með persónuupplýsingar um þig,
  • fá aðgang að og afrit af öllum þeim persónuupplýsingum sem eru unnar um þig, standi hagsmunir annarra því ekki í vegi, s.s. vegna réttinda annarra sem skulu vega þyngra, eða óska eftir að þær séu sendar til þriðja aðila,
  • fá rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar þínar uppfærðar og leiðréttar, auk þess að lokað verði fyrir notkun þeirra eða þeim eytt, eftir því sem lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn heimila,
  • koma á framfæri andmælum ef þú vilt takmarka eða koma í veg fyrir að persónuupplýsingar þínar séu unnar,
  • upplýsingar um það hvort fram fari sjálfvirk ákvarðanataka, og þá á hvaða rökum slík ákvarðanataka er byggð og endurskoðun á sjálfvirkri ákvarðanatöku,
  • afturkalla samþykki þitt um að Félagsbústaðir megi safna, skrá, vinna eða geyma persónuupplýsingar þínar, þegar vinnsla byggist á þeirri heimild. Afturköllun samþykkis skal ekki hafa áhrif á lögmæti vinnslu á grundvelli samþykkis fram að afturkölluninni.

Viljir þú nýta rétt þinn getur þú sent skriflega beiðni á personuvernd@felagsbustadir.is. Við munum staðfesta móttöku á beiðninni og að jafnaði bregðast við innan mánaðar frá móttöku beiðni. Verði ekki unnt að bregðast við innan mánaðar munum við tilkynna þér um töf á afgreiðslu innan mánaðar. Ekki er innheimt gjald þegar einstaklingar nýta rétt sinn í samræmi við ofangreint, nema í þeim tilvikum sem beiðni telst óhófleg eða augljóslega tilefnislaus.

Þú hefur einnig rétt  til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd sjáir þú ástæðu til þess. Upplýsingar um Persónuvernd má finna á heimasíðu þeirra, www.personuvernd.is.

Hversu oft er ruslið tekið í húsinu mínu?

Hér getur þú nálgast sorphirðudagatal Reykjavíkurborgar eftir hverfum. Í því koma fram upplýsingar bæði um almennt sorp og endurvinnslutunnur.

Hver annast úthlutun á íbúðum Félagsbústaða?

Miðlægt teymi hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar ákveður hverjir fá úthlutað í íbúðir Félagsbústaða. Sjá nánar hér.

Í hvaða tilgangi vinna Félagsbústaðir persónuupplýsingar um þig?

Félagsbústaðir vinna persónuupplýsingar einkum í þeim tilgangi að:

  • geta átt í samskiptum einstaklinga sem eru leigutakar hjá félaginu eða eru í forsvari fyrir lögaðila sem eru í viðskiptasambandi við félagið
  • kanna hvort viðmiðum sé mætt áður en leiguíbúð er úthlutað
  • geta gert og efnt leigusamninga, viðskiptasamninga og aðra samninga sem tengjast daglegum rekstri félagsins
  • gera félaginu kleift að veita þjónustu og sinna samningsskyldum sínum
  • innheimta leigu
  • leggja mat á ástand fasteigna, s.s. í tengslum við mat á viðhaldsþörf
  • uppfylla lagaskyldu sem hvílir á félaginu
  • bregðast við fyrirspurnum, ábendingum og kvörtunum frá einstaklingum
  • markaðssetja þjónustu og vörur félagsins
  • efla og auka gagnsæi í stjórnun félagsins
  • gæta að hagsmunum félagsins og annarra leigutaka
  • tryggja öryggi- og eignarvörslu, m.a. með öryggismyndavélum og eftirlitskerfum

Þegar þú notar heimasíðuna okkar kunnum við að safna upplýsingum um notkun þína, þ.e. frá hvaða vef er komið ásamt gerð vafra og stýrikerfis sem þú notar, tímasetningu og tímalengd heimsóknar og hvaða undirsíður þú heimsækir innan heimasíðu Félagsbústaða. Hér má finna frekari upplýsingar um notkun okkar á vafrakökum.

Hvað er lyklagjald?

Lyklagjald að upphæð 15.000 kr er innheimt ef ekki er skilað a.m.k. einum lykli að öllum hurðum þ.e. inngangshurð, sameign, geymslu, póstkassa og ruslageymslu (ef við á).

Hvernig ber ég mig að ef ég vil fá flutning í annað húsnæði?

Þú sækir um milliflutning hjá viðeigandi miðstöð. Öllum spurningum um milliflutninga og um biðtíma fyrir flutningi í aðra íbúð skal beina til Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eða í miðstöðina þína.

Hafi milliflutningur verið samþykktur og þú fengið úthlutað annarri íbúð tekur við sambærilegt ferli og þú fórst í gegnum þegar þú fékkst fyrst úthlutað íbúð. Þú skalt hringja í okkur og fá tíma í að skoða nýju íbúðina þína. Ef þú ert samþykk/ur nýju íbúðinni færðu bókaðan tíma í undirritun leigusamnings. Við milliflutning er mikilvægt að breyta lögheimili hið fyrsta sem og endurnýja umsóknir um húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nýtt heimilisfang. 

Um milliflutninga gilda gjöld. Gjöldin samanstanda annarsvegar af 30.000 króna einskiptisgjaldi og hinsvegar daggjaldi sem reiknast fyrir hvern dag sem þú ert enn með fyrri íbúð eftir að hafa undirritað samning um nýja íbúð. 

Hvert skal leita vegna framkvæmda á vegum húsfélags þar sem Félagsbústaðir eru í minnihluta?

Ef þú ert í forsvari fyrir húsfélag þar sem Félagsbústaðir á íbúð og framkvæmdir eru fyrirhugaðar skaltu senda okkur póst. Oftast nær fylgjum við meirihluta þegar kemur að samþykki fyrir endurbótum og framkvæmdum á sameign. Ef húsfélag stendur fyrir endurbótum og framkvæmdum við hverja íbúð fyrir sig skal þó senda okkur upplýsingar um verklýsingu og kostnað í tölvupósti áður en framkvæmdir hefjast. Í framhaldi af því sendum við svar til baka.

Allar upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir og fundarboð vegna húsfunda óskast sendar í tölvupósti.

Á ég rétt á húsnæðisbótum?

Já, í flestum tilvikum hafa leigjendur okkar rétt á húsnæðisbótum. Nánari upplýsingar um húsnæðisbætur og umsóknir eru á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar  

Húsnæðisbætur greiðast til Félagsbústaða og koma til frádráttar á leigu einstaklinga. Það sama á við um sérstakan húsnæðisstuðning á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. 

Einstaklingar, sem skráðir eru einstæðir og búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót. Styrkurinn greiðist til einstaklinga. Sjá nánar hér.

Hver annast gerð húsaleigusamnings?

Þjónusturáðgjafar Félagsbústaða annast gerð húsaleigusamninga.

Ef þú ert búin/n að skoða íbúðina sem þú fékkst úthlutað getur þú bókað tíma í leigusamning í síma 520-1500. Skrifstofan er opin 9-15 mánudaga til fimmtudaga og 9-14 á föstudögum.

Ég er að flytja, hvernig læt ég vita?

Ef þú ætlar að flytja annað skaltu láta okkur vita með tölvupósti. Við munum leiðbeina þér með næstu skref og með það hvenær þú þarft að skila íbúðinni. Mundu að þú þarft alltaf að vera búin/n að tæma íbúðina, þrífa hana vel og tilkynna flutning til Veitna áður en þú skilar lyklum að henni. Sjá betri upplýsingar hér.

Hvert á að leita vegna slæmrar umgengni eða brota á húsreglum?

Ef þú býrð í húsi þar sem um er að ræða húsreglnabrot viljum við heyra af því. Sendu okkur tölvupóst, hafðu samband á netspjallinu eða hringdu og við skráum málið niður og bregðumst við eftir því sem við á. Við viljum alltaf vita meira frekar en minna.

Hver ber ábyrgð og kostnað á skemmdum á íbúðum Félagsbústaða?

Ef leigjandi eða aðili honum tengdur hefur valdið skemmdum þá ber hann ábyrgð og gæti þurft að greiða viðgerðarkostnað. Skemmdir af völdum utanaðkomandi þátta, s.s. veðurs, náttúruhamfara eða ótengdra aðila eru á ábyrgð og kostnað Félagsbústaða.

Hver ber ábyrgð á lóðaumhirðu?

Félagsbústaðir sjá um umhirðu lóða og þrif í sameignum í fjölbýlishúsum sem eru að fullu í eigu okkar. Í fjölbýlishúsum þar sem Félagsbústaðir eiga stakar íbúðir sjá viðkomandi húsfélög að öllu jöfnu um umhirðu lóða og sameigna.  

Ef íbúð fylgir einkagarður ber leigjandi sjálfur ábyrgð á almennri lóðaumhirðu, þ.e. að slá gras, hreinsa beð og klippa tré svo garðurinn sé snyrtilegur. Einnig getur leigjandi þurft að annast annarskonar sameignarskyldur, eins og þrif á sameiginlegum rýmum og umsjón með sorpgeymslum en þetta er háð samþykktum hvers húsfélags fyrir sig. Ef þessu er ekki sinnt áskilja Félagsbústaðir sér rétt til að láta framkvæma slíkt á kostnað leigjanda.

Er leyfilegt að leigja til ferðamanna eða annarra aðila?

Framleiga íbúða Félagsbústaða til ferðamanna eða annarra aðila, til lengri eða skemmri tíma, að hluta til eða í heild, er með öllu óheimil samkvæmt ákvæðum leigusamninga og ákvæðum húsaleigulaga. Slík framleiga samræmist heldur ekki tilgangi hinnar félagslegu aðstoðar sem liggur að baki öllum leigusamningum Félagsbústaða. Búast má við tafarlausri riftun samninga við broti á þessu banni. 

Hversu langt líður á milli þess sem íbúð er máluð?

Íbúðir eru að jafnaði málaðar á átta til tíu ára fresti frá því að leigjendur flytja inn nema að aðrar ástæður komi til, s.s. skemmdir, staðbundnar aðstæður og fleira.  Ef þú telur kominn tíma til að mála þína íbúð skaltu hafa samband við Félagsbústaði. 

Mega leigjendur gera breytingar á íbúð?

Almennt séð er ekki heimilt að gera neinar breytingar á íbúðum nema með leyfi Félagsbústaða. Að sjálfsögðu er þó í lagi að hengja upp myndir og aðra létta hluti á veggi.

Merkja Félagsbústaðir stæði fyrir hverja íbúð?

Við fjölbýlishús sem eru í fullri eigu félagsins eru stæði almennt ekki merkt íbúðum. 

Þar sem Félagsbústaðir eiga stakar íbúðir er því fyrirkomulagi fylgt sem er viðhaft á hverjum stað fyrir sig eftir ákvörðun þess húsfélags.

Útvega Félagsbústaðir P-stæði og sérmerkja fyrir íbúa?

Félagsbústaðir reyna að tryggja nægjanlegt framboð á P-stæðum miðað við fjölda leigjenda með P-skírteini og einnig gestkomandi. 

Sérmerking á P-stæði er háð mati Velferðarsviðs á sérþörf P-skírteinishafa og skal sækja formlega um slíkt til félagsráðgjafa eða viðkomandi miðstöðvar.

Veita Félagsbústaðir aðstoð með flutninga, losun úrgangs eða annað slíkt?

Nei. Ef þú telur þig hafa brýna þörf eða rétt á aðstoð af fjárhagslegum eða öðrum ástæðum þá skaltu tala við félagsráðgjafann þinn.

Ég fékk bréf frá Motus, hvað þýðir það?

Motus sér um að innheimta leigu sem komin er í vanskil fyrir Félagsbústaði.

Ef þú greiðir ekki á eindaga er send innheimtuviðvörun 7 dögum frá eindaga húsaleigu. Þá bætist einnig við kostnaður kr. 944.-.

Ef húsaleiga er enn ógreidd 30 dögum eftir eindaga fer leigukrafa í milliinnheimtu til Motus. Þar er greiðanda gefinn 7 daga frestur til þess að ganga frá greiðslu eða samkomulagi. Sé ekki brugðist við innheimtuviðvörun getur útburðarferli tekið við ásamt auknum innheimtukostnaði. Nánari upplýsingar má nálgast á greiðendavef Motus, Ekki gera ekki neitt. Í Motus er eftir fremsta megni komist til móts við greiðendur og fundnar lausnir sem stuðla að farsælli áframhaldandi búsetu. 

Hvert leita ég varðandi greiðslu húsaleigu?

Hafðu samband við okkur í síma, á netspjalli eða í tölvupósti og við skoðum málið með þér.

Hvernig ber ég mig að ef mig langar að fá mér dýr?

Almennt heimila Félagsbústaðir dýrahald í eignum sínum, en það er þó alltaf háð samþykki annarra íbúa í viðkomandi stigagangi og húsfélagi eignarinnar. Nauðsynlegt er að fá skriflegt samþykki frá 2/3 hluta íbúa í stigaganginum áður en þú færð þér dýr. 

Hafir þú fengið leyfi hjá öðrum íbúum í stigaganginum er nauðsynlegt að sækja um leyfi fyrir dýrinu og skrá hjá Reykjavíkurborg. Sjá nánari upplýsingar um hundahald og kattahald

Í kjölfarið verður þú að passa það vel að dýrið þitt valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifn­aði, né raski ró nágranna þinna. Hundaeigendur verða að fjarlægja skít eftir hundinn jafnóðum og ala hundinn upp þannig að hann gelti ekki þegar hann er einn heima. Hundar mega heldur ekki vera lausir í sameign eða á lóð og verða að vera í bandi þegar þeir eru að koma eða fara frá íbúð.

Hvert er ferlið sem fer af stað við ítrekuð húsreglnabrot?

Við brot á húsreglum fær leigjandi skriflega aðvörun. Brjóti leigjandi húsreglur ítrekað getur það leitt til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar og riftunar húsaleigusamnings þar sem krafist er  að íbúðin verði rýmd innan tiltekins frests.  Ef leigjandi fer ekki sjálfviljugur úr húsnæðinu eftir riftun þarf dómsúrskurð og milligöngu sýslumanns til að rýma húsnæðið.

Hvað er innifalið í hússjóð?

Þar sem Félagsbústaðir eiga stakar íbúðir taka húsgjöld mið af ákvörðunum aðalfunda hvers húsfélags fyrir sig. En í húsum alfarið í eigu Félagsbústaða taka húsgjöld mið af kostnaði liðins árs. 

Það er misjafnt milli fjölbýlishúsa hvað er innifalið í hússjóðsgjöldum. Það sem er oftast innifalið í hússjóðsgjöldum er hiti, rafmagn, umhirða lóðar t.d. garðsláttur, snjómokstur, sorphirða og endurvinnsla. Stundum eru aðkeypt þrif inní hússjóð en annars skipta íbúar með sér þrifum sameignar.

Viljir þú vita nákvæmlega hvað er innifalið í hússjóðnum í þínu húsi skaltu hafa samband. 

Hvert leita ég ef ég hef áhyggjur af ástandi íbúðarinnar sem ég leigi?

Hafir þú áhyggjur af ástandi íbúðarinnar sem þú leigir hvetjum við þig til þess að hafa samband við þjónustuborð í gegnum netspjall, tölvupóst eða síma og bókir tíma í úttekt. 

Við úttekt kemur starfsmaður eigna- og viðhaldssviðs í heimsókn til þín og metur viðhaldsþörf íbúðarinnar.

Af hverju breyttist upphæðin á leigureikningnum mínum í þessum mánuði?

Leiguverð íbúða Félagsbústaða er vísitölutengt og því getur leiguverð breyst smávægilega á milli mánaða.

Ef mikil breyting var á upphæð leigureiknings getur orsökin verið breytt upphæð húsnæðisbóta frá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun eða sérstaks húsnæðisstuðnings frá Reykjavíkurborg. 

Við bendum á að sundurliðaður greiðsluseðill birtist í heimabankanum þínum. 

Ég fékk senda aðvörun, hvað þýðir það?

Aðvaranir eru sendar leigjendum í kjölfar alvarlegra brota á húsreglum. Þegar við sendum aðvörun erum við í sambandi við félagsráðgjafa og/eða aðra stuðningsaðila sem koma að máli viðkomandi leigjanda og leggjum alltaf áherslu á að veita leigjanda tækifæri til að bæta hegðun sína. Við ítrekuð og alvarleg brot á húsreglum getur komið til afturköllunar á stjórnvaldsákvörðunar, riftunar húsaleigusamnings og að óskað eftir að íbúðin verði rýmd innan tiltekins frests. Í einhverjum tilvikum getur komið til útburðar. 

Hafir þú fengið aðvörun skaltu fara vel yfir efni hennar og taka tillit til þess sem þar kemur fram. Endilega hafðu samband ef eitthvað er óljóst. 

Hvað eru þjónustugjöld og hvað er innifalið í þeim?

Félagsbústaðir innheimta þjónustugjöld vegna þjónustuíbúða fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Innifalið í þjónustugjöldum er sólarhringsvakt, öryggiskerfi, stjórnunar- og skrifstofuhald auk ræstingar á sameign og aðstöðu í setustofu. 

Sjá gjaldskrá hér.

Hvað er greiðslugjald?

Greiðslugjald eða seðilgjald er kr. 200 gjald sem greitt er vegna bankakostnaðar við stofnun reikninga í heimabanka.

Hvernig get ég fengið fleiri lykla að íbúðinni?

Sé íbúðin í húsi sem Félagsbústaðir eiga að fullu biðjum við þig að hafa samband við okkur. 

Eigi Félagsbústaðir húsið ekki að fullu, þ.e. ef um staka íbúð er að ræða, fer leigjandi sjálfur til lásasmiðs og óskar eftir smíðum á lyklum. 

Leigjendur bera sjálfir kostnað vegna aukalykla. 

Hvernig get ég losnað við drasl úr sameigninni í fjölbýlishúsinu mínu?

Umgengni í sameignum fjölbýlishúsa er sameiginleg ábyrgð íbúa. Í húsreglum segir að ekki skuli skilja eftir drasl í sameign, t.d. á stigaganginum. Það er mikilvægt að íbúar hjálpist að við að leiðbeina hvort öðru og vinna saman að því að halda sameign snyrtilegri. Hafi umleitanir íbúa ekki skilað árangri og sé umgengni mjög slæm biðjum við þig að tilkynna það til okkar í síma 520-1500 eða í tölvupósti. 

Má ég mæta á húsfundi?

Þú mátt mæta á húsfund í húsinu þínu en athugaðu að þú hefur ekki atkvæðisrétt líkt og aðrir íbúar og eigendur íbúða í húsinu.

Er gluggaþvottur innifalinn í hússjóði?

Nei, almennt er gluggaþvottur ekki innifalinn í hússjóði en Félagsbústaðir láta reglulega þrífa glugga í húsum sem eru í heildareigu Félagsbústaða.

Hvað geri ég ef klósettið mitt er stíflað?

Ef hefðbundnar leiðir við stíflulosun hafa ekki dugað til bendum við þér á að hafa samband við okkur og við skoðum málið með þér. Við vekjum þó athygli á því að flestar klósettstíflur eru notkunartengdar og gæti því kostnaður fyrir stíflulosun lent á þér.

Er til sameiginlegur vettvangur fyrir leigjendur Félagsbústaða?

Já, Blokkin er félag leigjenda hjá Félagsbústöðum. Nánari upplýsingar má finna á Facebooksíðunni þeirra.

Hversu lengi þarf ég að bíða eftir að erindi mínu sé svarað?

Við svörum öllum erindum og setjum þau til afgreiðslu inn 24 klukkustunda eða næsta virka dag. Úrvinnslutími erinda getur verið mismunandi eftir eðli þeirra, t.d. eftir eðli viðgerðarbeiðna eða eftir því hversu flókinn samskiptavandinn er í húsinu sem þú býrð í. Þú getur treyst því að við vinnum málið eins fljótt og auðið er og munum upplýsa þig um stöðu mála eftir því sem við á. 

Þarf ég að kaupa tryggingar ef ég er leigjandi Félagsbústaða?

Þú sem leigjandi þarft að tryggja þitt innbú sjálf/ur, kjósir þú að gera slíkt. Félagsbústaðir eru ekki bótaskyldir vegna hvers konar skemmda á innbúi.  Fasteignin sem slík er tryggð af Félagsbústöðum skv. lögum þar að lútandi.

Mega börn eldri en 18 ára búa hjá leigutaka?

Börn leigutaka sem búsett eru hjá honum og ná 18 ára aldri eftir úthlutun húsnæðisins, er heimilt að vera áfram búsett hjá leigutaka eftir að 18 ára aldri er náð. 

Hvert get ég leitað ef ég hef ábendingu um misferli tengda starfsemi Félagsbústaða?

Hér getur þú sent inn ábendingu til Innri endurskoðunar ef þú hefur orðið var/vör við hugsanlegt misferli sem snýr að starfsemi Félagsbústaða.

Má geyma bíla sem ekki eru á númerum á bílastæðinu við húsið mitt?

Sameiginleg bílastæði við fjölbýlishús í eigu Félagsbústaða eru eingöngu ætluð fyrir nothæfa bíla. Séu númerslausir bílar, kerrur eða ferðavagnar geymdir á bílastæðum er Félagsbústöðum heimilt að láta fjarlægja þá á kostnað eiganda þeirra. Í slíkum tilvikum er tilkynning límd á rúðu bíls sem lagt er í leyfisleysi og eiganda gefið færi á að fjarlægja bílinn innan þess tíma sem gefinn er upp. Að öðrum kosti er bíllinn fjarlægður á kostnað eiganda. Vaka ehf. fjarlægir ökutækið og eigandi greiðir fyrir flutninginn samkvæmt verðskrá þegar hann leysir ökutækið út hjá Vöku.

Búir þú í húsi sem við eigum allar íbúðir í máttu láta okkur vita af númerslausum bílum á bílastæðum í síma 520-1500 eða í tölvupósti.

Ef þú býrð í stakri íbúð skaltu ræða við húsfélagið í húsinu sem þú býrð í.

Geta Félagsbústaðir aðstoðað mig við að fá flutning í aðra íbúð?

Nei. Óskir þú eftir að flytjast í annað húsnæði í eigu Félagsbústaða, svokölluðum milliflutningi, þarft þú að hafa samband við ráðgjafa á miðstöðinni í hverfinu þínu og fylla þar út milliflutningsumsókn. Umsókn þín fer svo á biðlista að uppfylltum skilyrðum reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Leigjendur sem eru á biðlista eftir milliflutningi fá reglulega úthlutað í annað húsnæði en biðtími er háður ýmsum þáttum, t.d. þörfum og stöðu leigjanda, framboði húsnæðis o.fl.  

Hvað er milliflutningsgjald?

Milliflutningsgjald er gjald sem reiknast við milliflutning milli íbúða. Milliflutningsgjald skiptist í einskiptisgjald, kr. 30.000, sem bætist við fyrsta mánuð í leigu og er lagt á við undirritun leigusamnings og daggjald, kr. 3.000, fyrir hvern dag sem leigjandi er með fyrri íbúð þar til henni er skilað. Daggjald reiknast frá öðrum degi, sem þýðir að undirriti leigjandi samning um nýja íbúð á mánudegi getur leigjandi skilað íbúð á þriðjudegi án daggjalds en skili hann á miðvikudegi reiknast daggjald upp á kr. 3.000 og heildar milliflutningsgjald verður því kr. 33.000. Leigjendur eiga þess kost að dreifa gjaldinu á allt að sex mánuði.

Er til Leigjendaaðstoð fyrir leigjendur og leigusala?

Já, hér finnur þú vefsíðu Leigjendaaðstoðarinnar sem rekin er af Neytendasamtökunum samkvæmt samningi við félagsmálaráðuneytið. Margvíslegan fróðleik er að finna á vefsíðunni og hvetjum við leigjendur til að kynna sér hana.

Félagslegar leiguíbúðir í maí 2024

0

Heildarfjöldi

0

Almennar íbúðir

0

Þjónustuíbúðir fyrir aldraða

0

Íbúðir fyrir fatlað fólk

0

Íbúðir fyrir heimilislausa

0

Fjölgun íbúða á tímabilinu 2019-2023.

0

Fengu úthlutað íbúð á árinu 2023.

0 %

Hlutfall íbúða Félagsbústaða í Reykjavík.

0 %

Hlutfall leigjenda sem eru ánægðir með að leigja hjá Félagsbústöðum í apríl 2024.

Fréttir og tilkynningar

Að hverju ertu að leita?