Rekstrartekjur Félagsbústaða (FB) námu rúmum 4 milljörðum á árinu 2018 og jukust um tæp 10% milli ára. Aukning tekna skýrist af fjölgun leiguíbúða á árinu 2018 en félagið leigir nú út tæplega 2600 íbúðir í Reykjavík og vegna vísitölubundinnar hækkunar leiguverðs um 2,8% á árinu. Rekstrargjöld hækkuðu um liðlega 9% milli áranna 2017 og 2018.
Sjóðstreymi FB sýnir að handbært fé frá rekstri er 558 millj.kr. samanborið við 653 millj.kr. árið áður. Afborganir lána nema 641 millj.kr. Heildaskuldir nema 41.052 millj.kr. og hafa hækkað um 3.643 millj.kr. á árinu en Félagsbústaðir keyptu fasteignir fyrir 2.972 m.kr og vörðu 935 m.kr í viðhald á fasteignum sínum á árinu.
- Rekstrartekjur ársins námu 4.028 millj.kr.
- Afkoma ársins fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 1.816 millj.kr. eða 45,1% af rekstrartekjum
- Matshækkun fjárfestingaeigna fyrir árið nam 2.942 millj.kr.
- Hagnaður ársins nam 2.384 millj.kr.
- Virði fjárfestingaeigna í lok ársins er 83.203 millj.kr.
- Eigið fé í lok ársins er 42.641 millj.kr.
- Eiginfjárhlutfall í lok ársins er 51,0%
- Vaxtaberandi skuldir í lok árs nema 37.790 millj.kr.
Bókfærður hagnaður af rekstri Félagsbústaða (FB) á árinu 2018 nam 2384 m.kr. og er hann allur tilkominn vegna hækkunar á virði eigna sem tekur mið af fasteignamati.
Mikilvægt samfélagslegt hlutverk
Félagsbústaðir eru hlutafélag um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis í eigu Reykjavíkurborgar. Félagið er stærsti eigandi félagslegs húsnæðis á landinu og um leið stærsta leigufélag landsins. Leiguíbúðum í eigu Félagsbústaða í Reykjavík hefur fjölgað um 400 frá árinu 2014 en í lok árs 2018 áttu Félagsbústaðir 2.618 íbúðir. Stefnt er að því að þær verði orðnar 3.170 árið 2022.
Starfsemi í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Aðgengi að stöðugu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði telst til grundvallar mannréttinda og er lykilatriði þegar kemur að efnahagslegu heilbrigði samfélagsins. Í stöðuskýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem gefin var út hér á landi á síðasta ári, var aukið framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði skilgreint sem eitt þeirra verkefna sem vinna þyrfti að á Íslandi. Það stuðlar að betri heilsu og efnahag og auknum tækifærum einstaklinga til félagslegrar þátttöku. Félagslegar leiguíbúðir tryggja fólki með lágar tekjur stöðugan húsakost á viðráðanlegu verði sem kann að vera erfitt að finna á einkamarkaði.
Það er stefna Reykjavíkurborgar að 5% alls leiguhúsnæðis í borginni séu félagslegar leiguíbúðir á hagstæðum kjörum. Reykvíkingar eru um 36% Íslendinga en þeir borga að jafnaði hærra hlutfall af launum sínum til húsnæðis en aðrir landsmenn. Því er enn ríkari þörf fyrir félagslegt leiguhúsnæði á hagstæðum kjörum í Reykjavík.
Nánari upplýsingar:
Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, s: 892 2840