Rekstur Félagsbústaða (FB), sem hafa þann tilgang að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík, gekk vel á síðasta ári. Félagið leigir út hátt í 3000 íbúðir og á árinu 2020 var fjárfest í 127 nýjum íbúðum. Íbúðir félagsins eru í öllum hverfum borgarinnar og ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum undir tilteknum eigna- og tekjumörkum, auk leiguíbúða fyrir aldraða og fólk með fötlun. Nærri lætur að félagslegar leiguíbúðir séu um 5% af íbúðarhúsnæði í borginni og er leiguverð þeirra umtalsvert lægra en á almennum markaði.
Í ársreikningi FB fyrir árið 2020, sem samþykktur var af stjórn félagsins í síðustu viku, kemur fram að tekjur voru 4,7 ma.kr. og jukust um tæp 3,5% milli ára en rekstrargjöld námu 2,5 ma.kr. sem er liðlega 3,6% aukning frá fyrra ári. Rekstur fasteigna og eignfærður kostnaður vegna þeirra nam rúmlega þremur milljörðum króna og fjárfesting í nýjum eignum nam rúmlega 3,8 ma.kr.
Fjármagnsgjöld lækka um 18%
Í árslok 2020 voru skuldir félagsins 48,7 ma.kr. og höfðu aukist um 7,8% milli ára. Skuldbindingar vegna stofnframlaga ríkis og Reykjavíkurborgar námu 2,9 ma.kr. á árinu sem er aukning um 1,3 ma.kr. frá fyrra ári. Í skýrslu stjórnar FB kemur meðal annars fram að fjármagnsgjöld Félagsbústaða lækkuðu um 0,2 ma.kr. á árinu 2020 miðað við fyrra ár og námu 1,1 ma.kr. Lækkun fjármagnsgjalda um 18% má rekja til endurfjármögnunar á eldri óhagstæðum lánum og til betri vaxtakjara hjá stærsta lánveitanda félagsins. Eignir Félagsbústaða voru samkvæmt efnahagsreikningi rúmlega 100 ma.kr. í árslok 2020, en þar af nema fjárfestingareignir 99 ma.kr. Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok 2020 var 48,6%. Heildarhagnaður félagsins nam 1,4 ma.kr. og skýrist að mestu af hækkun fasteignamats á árinu.
Mikil fjölgun nýbyggðra eigna
Félagsbústaðir eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar sem sér um uppbyggingu, eignarhald og rekstur á félagslegu íbúðahúsnæði samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar.
Á árinu 2020 bættust sem fyrr segir 127 leigueiningar við eignasafn félagsins og eru það mestu íbúðakaup Félagsbústaða á einu ári í meira en áratug. Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri félagsins segir sérstaklega ánægjulegt að viðbótin við eignasafnið á síðsta ári sé að stórum hluta nýbyggðar íbúðir. Aukning félagslegs leiguhúsnæðis tekur mið af áherslum í uppbyggingaráætlun borgarinnar um félagslegt leiguhúsnæði sem miðar að því að um 5% af íbúðahúsnæði í borginni sé félagslegt leiguhúsnæði og að það dreifist sem jafnast um hverfi borgarinnar.
Á árinu 2020 hófust framkvæmdir við byggingu tveggja sex íbúða húsa, við Árland 10 og Stjörnugróf 11 sem áformað er að ljúki á fyrri hluta 2021. Undirbúin var bygging þriggja minni fjölbýlishúsa við Vesturgötu 67, Rökkvatjörn 3 og Hagasel 23 og verður það síðastnefnda fyrsta Svansvottaða húsið sem Félagsbústaðir byggja.
Í skýrslu stjórnar Félagsbústaða kemur fram að kórónaveirufaraldurinn á árinu 2020 hafði óveruleg áhrif á rekstur félagsins og er ekki talinn ógna rekstri eða efnahag félagsins um fyrirsjáanlega framtíð. Samkvæmt eigandastefnu á rekstur félagsins að vera fjárhagslega sjálfbær.
Here má nálgast ársreikning Félagsbústaða fyrir árið 2020.