vistvæn hönnun og velsæld í fyrirrúmi
Nýlega var lokið við byggingu fjölbýlis á Sjómannaskólareitnum. Húsið er afar glæsilegt og vistvænt, telur sjö íbúðir og er hannað sérstklega fyrir fatlaða einstaklinga. Félagsbústaðir afhentu húsið við hátíðlega athöfn þann 18. desember sl.
Við athöfnina afhenti Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Einari Þorsteinssyni borgarstjóra húsið sem afhenti væntalegum íbúum lykla af íbúðunum.
Fjórir íbúðakjarnar í byggingu eða hönnunarferli
Félagsbústaðir, sem eru alfarið í eigu Reykjavíkurborgar hafa það hlutverk að tryggja framboð af félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Markmiðið er að 5% íbúða í borginni sé félagslegt leiguhúsnæði. Nú eru 3145 félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík og af þeim eru 475 íbúðir fyrir fatlað fólk. Þetta er nítjándi íbúðakjarninn sem Félagsbústaðir hafa ýmist byggt eða keypt í Reykjavík frá árinu 2018. Fjórir íbúðakjarnar eru nú í byggingu eða hönnunarferli.
Nýjar íbúðir félagsbústaða eru tákn nýrra tíma
Íbúðirnar á Háteigsvegi eru staðsettar á milli Vatnshólsins svokallaða og Sjómannaskólans. Þær eru bjartar og fallegar og úr mörgum þeirra er óviðjafnanlegt útsýni yfir borgina. Íbúðakjarninn er merkilegur fyrir þær sakir að unnið var markvisst að því að lækka kolefnisspor samhliða hönnun hans.
Arkitekt hússins, Arnhildur Pálmadóttir hlaut nýverið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þverfaglega nálgun og áherslu á minnkaða kolefnislosun og endurnýtingu byggingarefnis, en stór hluti kjarnans er unnin úr endurnýttu timbri. Meðal annars fengu afgangar af steinflísum sem féllu til við byggingu Smiðju, skrifstofubyggingar Alþingis, nýtt hlutverk í íbúðakjarnanum, en þær prýða nú gólf í anddyri hans. Fleira byggingarefni var endurnýtt, svo sem afgangstimbur frá Húsasmiðjunni, afgangsgluggar frá Gluggagerðinni og afgangstimbur frá Byko en öll gáfu fyrirtækin efnið til verkefnisins.
Félagsbústaðir þakka öllum þeim sem lögðu verkefninu lið. Eyþór Friðriksson hjá Félagsbústöðum hafði yfirmsjón með verkinu.
Nánar má lesa um framkvæmdina og samstarfaðila á vefsíðu sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur útbúið um það.