Félagsbústaðir hf. óska eftir áhugasömum einstaklingum til setu í stjórn félagsins. Frambjóðendur skulu vera óháðir og með góða þekkingu og haldbæra reynslu sem nýtast mun félaginu í kjarnastarfsemi þess, sem er uppbygging, eignarhald, kaup, sala, rekstur, viðhald og útleiga á félagslegu íbúðarhúsnæði og sérstökum búsetuúrræðum fyrir fatlaða í Reykjavík.
Samkvæmt samþykktum Félagsbústaða er stjórn félagsins skipuð fimm einstaklingum og fimm til vara og skal meirihluti stjórnar vera óháður félaginu og Reykjavíkurborg.
Aðili telst óháður félaginu og Reykjavíkurborg samkvæmt skilgreiningu Leiðbeininga Viðskiptaráðs o.fl. um góða stjórnarhætti hverju sinni. Kjörnir fulltrúar í borgarráði og starfsmenn Reykjavíkurborgar, á yfirstandandi og næstliðnu kjörtímabili, teljast ekki óháðir stjórnarmenn.
Lagt verður mat á þekkingu og reynslu umsækjenda með hliðsjón af framangreindum eiginleikum sem nauðsynlegt er að stjórn Félagsbústaða sem heild búi yfir. Í kjölfarið fer fram kjör til stjórnar.
Aðeins koma til greina einstaklingar sem hafa nægan tíma og vilja til að sinna störfum fyrir stjórnina af kostgæfni, heiðarleika og áreiðanleika. Störf þeirra mega ekki valda hagsmunaárekstrum við önnur störf þeirra og hagsmuni.
Þeir einstaklingar sem hafa áhuga á bjóða sig fram í stjórn Félagsbústaða hf. sem óháðir fulltrúar eru beðnir um að fylla út skráningarform og leggja fram ferilskrá og umsókn þess efnis í gegnum auglýsingu á vef Vinnvinn
Nánari upplýsingar veita Auður Bjarnadóttir (audur@vinnvinn.is) og Jensína K. Böðvarsdóttir (jensina@vinnvinn.is) hjá Vinnvinn.
Frestur til að skila inn upplýsingum er til 11. mars 2024.