Nýlega veitti Umhverfisstofnun Félagsbústöðum Svansvottun vegna nýbyggingar íbúðakjarna við Hagasel í Breiðholti. Húsið er fyrsta opinbera byggingin sem hlýtur umhverfisvottun. Íbúðakjarninn sem er byggður fyrir fatlað fólk og með þjónustuaðstöðu var tekinn í notkun haustið 2023.
Hildur Ýr Ottósdóttir og Hjördís Sóley Sigurðardóttir hjá Ydda arkitektum eru hönnuðir hússins og Dagný Bjarnadóttir hjá DLD hannaði lóðina. Hefur þeim tekist einstaklega vel til við að skapa fallegt hús sem fellur vel að grónu umhverfi í nágrenni þess. Íbúðirnar sjö eru bjartar, hlýlegar og skipulag til fyrirmyndar. Garður við húsið á eftir að verða sannkallaður sælureitur þegar gróðurinn hefur tekið við sér. Allt efnisval er að sjálfsögðu umhverfisvænt og gefur húsinu bæði innan dyra og utan notalegan blæ. Mikil ánægja ríkir meðal íbúa og starfsfólks hússins.
„Við erum stolt að hljóta Svansvottun fyrir byggingu hússins og ánægð með að geta boðið íbúum umhverfisvænt og vonandi heilsusamlegra húsnæði en almennt gerist“, segja þau Sigrún Árnadóttir og Eyþór Friðriksson hjá Félagsbústöðum. Jafnframt þakka þau Yddu arkitektum, Fortis byggingarverktökum og Umhverfisstofnun fyrir góða samvinnu og vel unnin verk.