Chat with us, powered by LiveChat

Um félagið

Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið hlutafélag alfarið í eigu Reykjavíkurborgar og er tilgangur þess að byggja, eiga og hafa umsjón með félagslegu leiguhúsnæði fyrir borgina.

Allt frá árinu 1942 þegar ráðist var í byggingu fyrstu íbúðablokkanna við Hringbraut hefur Reykjavíkurborg unnið markvisst að því að fjölga félagslegum íbúðum í borginni.

Árið 1997 ákváðu borgaryfirvöld að stofna sérstakt fyrirtæki, Félagsbústaði, til þess að hafa umsjón með uppbyggingu og rekstri félagslegs leiguhúsnæðis. Við stofnun tóku Félagsbústaðir yfir 828 leiguíbúðir. Frá þeim tíma hefur íbúðunum fjölgað jafnt og þétt. Í lok árs 2021 leigðu Félagsbústaðir út um 3000 íbúðir. Uppbygging og fjölgun íbúða tekur mið af húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar og áherslum borgaryfirvalda í málaflokknum. 

Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er áhersla lögð á að tryggja félagslegan margbreytileika og fjölbreytni í hverfum borgarinnar og þannig er gert ráð fyrir að 5% alls íbúðarhúsnæðis sé félagslegt leiguhúsnæði.  Í samræmi við þá stefnu leggja Félagsbústaðir áherslu á að staðsetning leiguíbúða dreifist sem jafnast um borgina.  Margbreytileiki í íbúasamsetningu hefur margskonar jákvæð áhrif á líf einstaklinganna og auðgar samfélagið. 

Samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Félagsbústaðir eru í nánu samstarfi við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar sem sér um að meta umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði og úthluta þeim íbúðunum sem lausar eru hverju sinni. Þegar úthlutun hefur farið fram taka Félagsbústaðir við hefðbundnu hlutverki leigusala.

Með félagslegu leiguhúsnæði er átt við almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir, og þjónustuíbúðir aldraðra. Alla tíð hefur verið lögð rík áhersla á að leiguverð íbúða Félagsbústaða sé viðráðanlegt fyrir leigjendur.

Að hverju ertu að leita?