Félagsbústaðir hefja í dag framkvæmdir við byggingu átta íbúða húss fyrir fatlað fólk við Háteigsveg 59. Húsið er hannað með þarfir íbúanna í huga og er gert ráð fyrir að þangað flytji ungt fólk sem fram til þessa hefur búið í foreldrahúsum. Félagsbústaðir, sem eru í eigu Reykjavíkurborgar, eru eitt stærsta leigufélag landsins með tæplega 3100 félagslegar leiguíbúðir í höfuðborginni.
Húsið er 565 m2 staðsteypt fjölbýlishús á þremur hæðum við Vatnshólinn og Stýrimannaskólann.
Framkvæmdin er þróunarverkefni og við upphaf hönnunar voru sett markmið um að lækka kolefnisfótspor um að lágmarki 30% miðað við sambærileg viðmiðunarhús. Notast er við greiningar eins og lífsferilsgreiningu (LCA)* og líftímakostnaðargreiningu (LCC)* og endurnýtingu byggingarefna til að ná því markmiði. Allar útfærslur og efnisnotkun er hefðbundin en klæðning hússins verður úr endurnýttu timbri og unnið er með framleiðsluaðilum steypu við lækkun kolefnisspors. Nú þegar húsið er fullhannað lítur út fyrir að hægt verði að lækka kolefnissporið enn frekar.
Arkitekt hússins er Arnhildur Pálmadóttur hjá s.ap arkitektum sem hefur sérhæft sig í sjálfbærri hönnun. Kristinn Þór Geirsson hjá Vinahús ehf. sér um framkvæmd byggingarinnar og byggingastjóri er Gísli Valdimarsson hjá VSB verkfræðistofu.
Félagsbústaðir hafa á undanförnum árum byggt eða keypt 17 nýja íbúðarkjarna fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir víðs vegar um borgina sem eiga það sammerkt að vera byggðir með hliðsjón af áætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þá hafa Félagsbústaðir jafnframt keypt fjölda íbúða fyrir fatlað fólk sem getur búið sjálfstætt með viðeigandi stuðningi á síðustu árum.
Heildarkostnaður við verkið er áætlaður liðlega 500 m.kr. Áætluð byggingarlok eru 1. september 2024.
Meðfylgjandi er mynd frá því fyrr í dag, þegar fyrstu skóflustungurnar að húsinu voru teknar.