Brunavarnir

Brunavarnir í fjölbýlishúsum skipta miklu máli og þurfa húsfélög að gæta að því að slökkvitæki sé til staðar á hverri hæð og reykskynjarar séu fleiri frekar en færri í sameign.

Mikilvægt er að huga vel að brunavörnum í fjölbýlishúsum. Rétt staðsett slökkvitæki af réttri gerð getur skipt sköpum ef eldhætta skapast. Slökkvitæki skulu vera á hverri hæð, u.þ.b. 5-10 cm frá gólfi svo þau séu aðgengileg öllum í neyð. Enn fremur mælumst við til þess að slökkvitæki séu á geymslugöngum og í sameiginlegum þvottahúsum. Það sama gildir um reykskynjara.

Í byggingarreglugerð kemur fram að eigendum ber að fela viðurkenndum aðilum yfirferð slökkvitækja árlega. Við mælum því með því að hafa reglubundið eftirlit með brunavörnum í fjölbýlishúsum í höndum fyrirtækja á því sviði. Nánari upplýsingar er að finna í byggingarreglugerð.

Mælst er til að hurðir í sameignum og inngangshurðir í íbúðir séu brunavarnarhurðir. Þær eru eldheldar í allt að 30 mínútur og geta þannig tryggt öryggi þitt og annarra í húsinu.

Við mælumst til þess að íbúar hafi eldvarnarteppi innan íbúða en þau geta með réttri notkun komið í veg fyrir útbreiðslu elds, t.d. frá minni raftækjum eða kertum. Eldvarnarteppi hafa þá virkni að þau einangra eld og koma í veg fyrir útbreiðslu reyks og eiturefna. Einnig er mikilvægt að vera með slökkvitæki innan íbúðar og reykskynjara í hverju herbergi.

Að hverju ertu að leita?