Dýrahald

Ef íbúi í fjölbýlishúsi vill fá sér hund eða kött þarf að afla samþykkis hjá tveimur þriðja eigenda í húsinu. Ef þú býrð í húsi sem Félagsbústaðir eiga íbúð og ert að afla samþykkis fyrir dýri óskum við eftir því að þú aflir fyrst samþykkis hjá leigjanda okkar og við staðfestum svo samþykkið í framhaldinu.

Óski eigandi íbúðar í fjölbýli eftir að fá sér hund eða kött þarf hann að afla samþykkis 2/3 eigenda í stigaganginum fyrir dýrinu. Ekki er þó nóg að fá einungis undirskriftir frá eigendunum sjálfum heldur þarf að skrá dýrið hjá sveitarfélagi og afhenda húsfélagi staðfestingu þar að lútandi. Ákvörðun um samþykki dýrahalds þarf svo að fara fram á húsfundi. Í strangasta skilningi þarf í kjölfarið að þinglýsa samþykki frá húsfundi á íbúðina sem dýrið býr í til að leyfi haldist gagnvart framtíðareigendum, sé íbúð í stigaganginum seld. Athugið að afla þarf samþykkis fyrir hverju dýri sem fengið er inn á heimilið.

Í húsum þar sem Félagsbústaðir eiga stakar íbúðir óskum við eftir því að leitað sé samþykkis hjá leigjanda Félagsbústaða fyrir dýrahaldi. Sé viðkomandi leigjandi samþykkur dýrahaldinu staðfesta Félagsbústaðir samþykkið með formlegum hætti. 

Þegar hvorki er um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða þarf ekki samþykki annarra eigenda fyrir hunda- og kattahaldi í húsinu. Á það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Þegar sameiginlegur stigagangur er utanáliggjandi og gengið er inn í íbúðir af svölum þarf samþykki þeirra eigenda sem hann tilheyrir. Þó er nauðsynlegt að áður en dýr kemur í hús sé húsfélaginu tilkynnt skriflega um dýrahaldið og því afhent ljósrit af leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem við á.

Félagsbústaðir leyfa dýrahald í íbúðum félagsins en leigjendur okkar þurfa að sjálfsögðu að afla samþykkis fyrir hverju dýri.

Mikilvægt er að huga að því að hundar og kettir skulu ekki vera í sameign eða á sameiginlegri lóð og hundar skulu ávallt vera í taumi í umsjón eiganda þegar komið er og farið frá íbúð. Lausaganga í sameign er bönnuð. Skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi er að vel sé hugsað um dýrið og tryggt að dýrið valdi öðrum íbúum ekki ónæði eða óþægindum. Dýr mega koma í heimsókn í sólarhring þrátt fyrir að dýrahald sé bannað í húsinu.

Við vekjum athygli á því að hjálparhundar eru undanskyldir samþykki um dýrahald.

Að hverju ertu að leita?