Chat with us, powered by LiveChat

Framkvæmdir

Við hvetjum húsfélög til að notast við þjónustu óhaðra aðila ef ráðast þarf í framkvæmdir, en með því fæst betri yfirsýn og utanumhald um þær framkvæmdir sem ráðast þarf í.

Við hvetjum húsfélög til þess að standa rétt að stórum ákvörðunum sem snerta sameiginleg málefni eins og framkvæmdir og endurbætur á húsi og sameiginlegum svæðum innan og utanhúss. Slíkar ákvarðanir skulu teknar á húsfundum þar sem allir eigendur hafa kost á því að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðunum og atkvæðagreiðslu. Einstakir eigendur mega ekki taka ákvarðanir eða gera ráðstafanir gagnvart sameign eða sameiginlegum málefnum upp á sitt einsdæmi.

Í einstaka tilvikum getur eigandi íbúðar þó látið framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra, að uppfylltum skilyrðum í lögum. Þetta er einkum ef sameign eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi vegna þess að stjórn húsfélags eða aðrir eigendur hafa ekki reynst samvinnuþýðir þrátt fyrir áskoranir. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að liggi fyrir sönnun á nauðsyn, umfangi og kostnaði viðgerðar og mælum við með að sérfróðir matsmenn vinni slíkt. 

Við bendum húsfélögum á að setja stærri framkvæmdir í farveg hjá óháðum aðila og fá úttekt á húsinu frá ráðgjafafyrirtæki. Þannig er hægt að áætla viðhaldsþörf komandi ára og forgangsraða verkefnum. Sé áætlun á framkvæmdum í umsjón óháðs aðila fæst yfirsýn, umsjón og eftirlit með þeim framkvæmdum sem þarf að fara í. Við mælumst þó til þess að þeir aðilar sem sinna framkvæmdinni sjálfri og eftirliti með henni séu ótengdir.

Okkar reynsla er sú að það getur verið gagnlegt fyrir stærri húsfélög að nýta sér þjónustu fyrirtækja sem sinna húsfélagaþjónustu til að einfalda alla vinnu við framkvæmdir og innheimtu kostnaðar tengdri þeim.

Við vekjum athygli á því að í litlum húsfélögum þar sem eignarhlutar eru 6 eða færri er ekki lagaleg skylda að skipa stjórn. Heimilt er að veita einum eiganda að hluta eða öllu leiti verkefni stjórnar. Í þeim tilfellum hvetjum við eigendur til þess að vera í sambandi við okkur og fá ráð varðandi framkvæmdir og annað viðhald.

Að hverju ertu að leita?