Innviðaráðherra afhenti Félagsbústöðum 5 m.kr. styrk úr Aski mannvirkjarannsóknarsjóði föstudaginn 9. febrúar sl. Verkefni Félagsbústaða, nýbygging við Háteigsveg 59, var meðal 17 annarra verkefna sem hlutu styrk í úthlutunarflokknum vistvæn byggingarefni. Áætlað er að kolefnisspor hússins við Háteigsveg sem er átta íbúða hús fyrir fatlaða einstaklinga verði 40% minna en viðmiðunarhúss.
Félagsbústaðir hafa sett sér stefnu í sjálfbærnimálum. Þar er m.a. lög áhersla á að draga úr losun, minnka umhverfisáhrif bygginga og minnka ágang á náttúruauðlindir. Stefnan var höfð að leiðarljósi við hönnun og efnisval hússins sem er að rísa á Háteigsvegi 59. Þegar verkefnið hófst árið 2021 var margt nýstárlegt, eins og endurnýting byggingarefna, lífsferilsgreining, líftímakostnaðargreining og fleira félagið hafði ekki fengist við áður en er nú farið að þykja eðlilegt að gert sé.
Meðal þess sem hefur verið endurnýtt er byggingarefni húss sem félagið var að breyta og endurbyggja, endurnýttir verða gluggar sem fengust frá Gluggagerðinni, afgangur af steinklæðningu nýbyggingar við Alþingishúsið verður notuð í byggingunni, gólfefni íbúðanna verður endurnýtt parket sem verið er að skipta út í íþróttahúsi. Steypan, Berglind, er umhverfisvæn frá BM Vallá. Klæðning hússins er afgangstimbur frá Húsasmiðjunni sem annars hefði verið fargað.
Styrkurinn er viðurkenning fyrir Félagsbústaði og öðrum sem koma að hönnun og byggingu hússins við Háteigsveg 59.
Áætlað er að byggingariðnaðurinn beri ábyrgð á 30-40% af allri losun á heimsvísu og því ljóst að þar liggja tækifæri til lausna loftslagsvandans enda eiga flest verkefnin í Aski það sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum.
Askur, mannvirkjarannsóknasjóður , var stofnaður árið 2021 og var þetta þriðja sinn sem úthlutað var úr sjóðnum.