Niðurstöður könnunar sem nýverið var gerð meðal leigjenda Félagsbústaða benda til aukinnar ánægju með þjónustu og aðra þætti sem spurt var um borið saman við niðurstöður fyrri kannana árin 2018 og 2021.
„Við fögnum þessum niðurstöðum. Þær benda til aukinnar ánægju með þjónustuna, húsnæðið sjálft og viðhald þess og fleira sem leitað var svara við í þessari þriðju könnun sem gerð hefur verið meðal leigjenda á sl. 6 árum“, segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða.
„Það er gaman að sjá að þær breytingar á þjónustu og vinnulagi sem hafa verið innleiddar síðustu ár hjá séu að skila sér í jákvæðari viðhorfum leigjenda. Það hvetur okkur áfram.“ segir Þóra Þorgeirsdóttir sviðsstjóri þjónustusviðs.
Langflestir svarenda eða 77% eru ánægðir með íbúðina sem þeir leigja og 83% eru ánægðir með hverfið sitt óháð því hvar það er í borginni. Þá eru 64% svarenda sammála fullyrðingu um að leiguverð sinnar íbúðar sé hagstætt en 21% eru ósammála, á meðan 15% eru hvorki sammála né ósammála.
Traust til félagsins hefur ekki mælst meira en um 80% svarenda bera traust til félagsins, sem er aukning um meira en 10% frá fyrstu mælingu 2018.
Liðlega 73% leigjenda eru frekar eða mjög ánægðir með þjónustu Félagsbústaða. Einnig upplifa svarendur almennt að starfsfólk komi fram við það af virðingu eða 80% leigjanda og 74% telja starfsfólk fljótt að svara fyrirspurnum.
Mikil ánægja mælist með viðbrögð við þörf á minniháttar viðhaldi og finnst 75% vel leyst úr slíkum erindum sem er aukning um 15% frá 2021. Þá eru 70% ánægð með úrlausn slíkra minniháttar viðhaldsmála í heild og er ánægjulegt að langflestir eða 72% eru ánægðir með biðtíma eftir framkvæmd viðgerða og 73% með gæði viðgerðanna.
Einnig var áhugavert að sjá að vísbendingar eru um að leigjendur sjái húsnæðið í vaxandi mæli fyrir sér sem framtíðarhúsnæði og síður sem millibilshúsnæði. Árið 2021 sáu tæp 66% svarenda húsnæðið fyrir sér sem framtíðarhúsnæði en eru nú rúmlega 71%.
Rannsóknarfyrirtækið Maskína annaðist framkvæmd könnunarinnar sem fór fram dagana 9. apríl – 5. maí 2024 meðal leigjenda Félagsbústaða. Félagsbústaðir létu framkvæma sambærilegar kannanir árin 2018 og 2021 og því hefur byggst upp góður samanburður á þróun viðhorfa leigjanda yfir 6 ára tímabil.