Stjórn Félagsbústaða hf. samþykkti árshlutareikning 30.06.2020 á fundi sínum í dag 27. ágúst. Helstu kennitölur reikningsins eru:
- Rekstrartekjur tímabilsins námu 2.272 millj.kr.
- Afkoma tímabilsins fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 1.050 millj.kr. eða 46,2% af rekstrartekjum
- Matshækkun fjárfestingaeigna fyrir tímabilið nam 168 millj.kr.
- Virði fjárfestingareigna í lok tímabilsins er 94.134 millj.kr.
- Eigið fé í lok tímabilsins er 47.389 millj.kr.
- Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins er 49,3%
- Vaxtaberandi skuldir í lok tímabils nema 44.372 millj.kr.
Félagsbústaðir eru með skráð skuldabréf í Kauphöll Íslands og fylgja þeim reglum sem gilda um skráð félög. Samþykktir félagsins kveða einnig á um fyrirkomulag ýmissa þátta í starfseminni og eru þær aðgengilegar á vefsíðu þess ásamt þeim lögum sem gilda um félagið.
Rekstur og afkoma
Rekstrartekjur Félagsbústaða á fyrri helmingi 2020 námu 2.272 millj.kr. og jukust um 7,3% milli ára en þar munar aðallega um verðbólguhækkun og stækkun eignasafnsins. Rekstur og viðhald eigna nam 963 m.kr., hækkar um 141 m.kr. eða um 17,1% á milli ára. Rekstrarhagnaðarhlutfall (EBIT%) er lægra en á fyrra ári eða 46,2% samanborið við 50,4% fyrir sama tímabil 2019.
Eignasafn og efnahagur
Heildareignir félagsins námu 96.140 millj.kr. í lok tímabilsins en þær jukust um 2,6% frá ársbyrjun. Fjárfestingareignir jukust um 2,2% eða 2.007 millj.kr., fjárfest var fyrir 1.839 millj.kr. og matsbreyting nam 168 millj.kr. Innborguð stofnframlög frá ríki og borg námu 712 millj.kr. á tímabilinu. Tekin voru ný langtímalán í febrúar síðastliðnum með útgáfu í félagslega skuldabréfaflokki Félagsbústaða, FB100366 SB. Alls voru 3.500 milljónir að nafnvirði seldar í lokuðu útboði á ávöxtunarkröfunni 1,85%. Auk þess seldi félagið í þessum mánuði, þann 13.ágúst, 1.750 milljónir að nafnvirði í lokuðu útboði á ávöxtunarkröfunni 1,24%.
Félagið greiddi upp langtímalán fyrir ríflega 2.000 millj.kr. á tímabilinu.
Eigið fé hækkaði um tæplega 159 millj.kr. frá ársbyrjun 2020. Eiginfjárhlutfall í lok tímabils var 49,3% en var 50,4% í lok árs 2019. Vísað er til árshlutareikningsins um ráðstöfun hagnaðar og aðrar breytingar á eiginfjárreikningum.
Þróun eignasafns
Félagsbústaðir keyptu 30 fasteignir á fyrri helmingi 2020 en félagið áformar að fjölga leigueiningum um 144 á árinu. Þegar hefur verið samið um kaup á fjölda nýrra íbúða en að auki er stefnt að kaupum á nýjum eða notuðum íbúðum á almennum markaði.
Nánari upplýsingar veitir:
Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri, sigrun@felagsbustadir, sími 520 1500