Félagsbústaðir hf., eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, sem eiga og reka félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Markmið félagsins er að starfa í þágu almannaheilla og skal rekstur þess vera sjálfbær. Félagið á og rekur ríflega 2.500 íbúðir í Reykjavík.
Rekstur og afkoma
Rekstrartekjur Félagsbústaða hf. á tímabilinu námu 975,9 millj. kr. sem er 14,6% aukning tekna frá sama tímabili 2017.
Rekstrargjöld námu samtals 496,2 millj. kr. og hækkuðu miðað við sama tímabil 2017 um 5,8%. Af einstökum rekstrarþáttum hækkaði rekstrarkostnaður fasteigna um 11,0% og fasteigna- og brunabótaiðgjöld um 23,8%. Viðhald og framkvæmdir lækka hinsvegar um 2,6%.
Rekstrarhagnaður Félagsbústaða hf. fyrir vaxtagjöld, verðbætur lána og matsbreytingu fjárfestingaeigna jókst um 23,8% miðað við sama tímabil 2017, úr 382 millj. kr. í 473 millj. kr. eða um 23,7%
Hrein vaxtagjöld námu 285 millj. kr. og jukust um 7,8% milli tímabila, vaxtaþekja rekstrarhagnaðar tímabilsins í ár var 1,67 miðað við 1,45 fyrir sama tímabil á fyrra ári.
Rekstrarafkoma Félagsbústaða hf. fyrir verðlagsbreytingar lána og matsbreytingu eigna nam 188 millj. kr. á tímabilinu miðað við 118 millj. kr. fyrir sama tímabil 2017 sem er 59,3% hækkun. Verðbreyting lána nam samtals 276 millj. kr. á tímabilinu.
Við mat á eignum Félagsbústaða til útleigu er stuðst við fasteignamat sem Þjóðskrá Íslands reiknar og tekur gildi í upphafi árs 2018 (verðmæti m.v. feb 2017), að teknu tilliti til 10% hækkunar á vísitölu íbúðaverðs í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu frá febrúar 2017 til loka tímabilsins. Matsbreyting fjárfestingaeigna félagsins nam 1.447 mkr á fyrsta ársfjórðungi 2018 en var 4.046 mkr fyrir sama tímabil árið 2017.
Hagnaður Félagsbústaða hf. nam 1.359 millj.kr. á tímabilinu en var 4.074 millj.kr. á sama tímabili árið 2017.
Efnahagsreikningur 31.03.2018
Heildareignir Félagsbústaða hf. 31.03.2018 námu 79.412 milljörðum kr. og jukust um 1.746 millj. kr. frá áramótum eða um 2,2%. Matsbreytingar fjárfestingaeigna og stækkun eignasafns skýra eignaaukninguna að stærstum hluta. Eigið fé félagsins nam 41,6 milljörðum.kr. þann 31.03.2018 og jókst um tæpa 1,4 milljarða kr. frá áramótum eða um 3,4%. Eiginfjárhlutfall var 52,4% þann 31.03.2018 en var 51,8% í árslok 2017.
Sjá Árshlutareikning hér.