Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifð leigufélag
Í tilefni af aðsendri grein Gunnars Smára Egilssonar sem birtist á visi.is fyrr í vikunni um starfsemi Félagsbústaða sé ég mig knúna til að koma mikilvægum upplýsingum um starfsemina á framfæri og leiðrétta rangfærslur eða misskilning sem fram kemur í skrifum Gunnars Smára.
Það er gott og vel að fjalla um félagslegt leiguhúsnæði sem er afar mikilvægt og brýnt til þess að tryggja húsnæðisöryggi. Hins vegar er slæmt þegar haldið er á lofti röngum fullyrðingum og ásökunum um að okrað sé á fólki og markmiðin snúist um að ávaxta fé fyrir borgarsjóð. Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið leigufélag í eigu Reykjavíkurborgar sem hefur þann tilgang einan að eiga, reka og leigja út félagslegar íbúðir. Í öllum hverfum borgarinnar eru félagslegar leiguíbúðir sem ætlaðar eru fjölskyldum og einstaklingum undir tilteknum eigna- og tekjumörkum, auk leiguíbúða fyrir aldraða og fólk með fötlun.
Reykjavíkurborg fer fram með góðu fordæmi og gerir í sinni húsnæðisáætlun ráð fyrir að 5% alls íbúðarhúsnæðis sé félagslegt leiguhúsnæði. Félagsbústöðum hefur gengið nokkuð vel að halda í við þessi markmið og eru nú með um 3000 íbúðir í útleigu.
Tekjuafgangur Félagsbústaða fer í greiðslur lána
Gunnar Smári telur að Félagsbústaðir hafi svigrúm til þess að lækka leigu að meðaltali um 30 þúsund krónur á mánuði og bendir máli sínu til stuðnings á ársreikning síðasta árs sem sýnir að tekjuafgangur fyrir matsbreytingar og verðbætur langtímalána nemi rúmum einum milljarði króna. Ef þessum milljarði væri ekki til að dreifa gætu Félagsbústaðir ekki staðið í skilum með afborgnir langtímalána sem á þessu sama ári námu rúmlega 950 milljónum króna. Það kynni ekki góðri lukku að stýra ef Félagsbústaðir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar og myndi í raun ógna húsnæðisöryggi leigjendanna. Félagsbústaðir leitast við að halda leiguverði stöðugu og viðráðanlegu á sama tíma og félagið þarf að standa undir kostnaði við rekstur, viðhald og fjölgun íbúða. Leiguverð Félagsbústaða er um 25%-30% lægra en leiguverð þinglýstra leigusamninga nú í haust hér í Reykjavík.
Þjónustu- og viðhorfskönnun sem MMR framkvæmdi fyrr á þessu ári meðal leigjenda Félagsbústaða sýnir að 72% aðspurðra telja að leiguverðið hjá Félagsbústöðum sé hagstætt og mikill fjöldi nefnir húsnæðisöryggi sem einn af kostum þess að leigja af Félagsbústöðum.
Sigrún Árnadóttir,
framkvæmdastjóri Félagsbústaða