FÖGNUÐU OPNUN NÝS ÍBÚÐAKJARNA FÉLAGSBÚSTAÐA Í HAGASELI

Fréttir

Félagsbústaðir afhentu velferðarsviði í gær fimmta íbúðakjarnann fyrir fatlað fólk á þessu ári. Íbúðakjarninn er í Hagaseli í Breiðholti en hann er í svansvottunarferli og er fyrsta fjölbýlishúsið sem Félagsbústaðir byggja af því tagi. Þar munu sjö fatlaðir einstaklingar eiga heimili. Íbúarnir fá stuðning starfsfólks velferðarsviðs sem hefur aðsetur í einni íbúð í húsinu.

Fjölbýlishúsið að Hagaseli er afar fallegt timburhús á tveimur hæðum. Sérinngangur er að hverri íbúð sem er um 70 fermetrar, með fallegum innréttingum og náttúrulegum kork á gólfum. Húsið er fallega staðsett í götunni og frá því liggja fallegar gönguleiðir að nærliggjandi tjörn og grónu opnu svæði. Litlar svalir eru á efri hæð og lítil verönd framan við íbúðir á jarðhæð. Garðurinn er sameiginlegur og gert ráð fyrir að þar sé hægt að rækta grænmeti.

Hagasel 23

Flytur úr foreldrahúsum í fyrsta sinn

Við athöfnina afhenti Álfheiður Hafsteinsdóttir, forstöðumaður í Hagaseli, íbúum lykla að sínum íbúðum og í framhaldinu gafst viðstöddum kostur á að skoða hverja og eina þeirra. „Hversu heppinn er maður í lífinu að fá að vinna í svona fallegu húsnæði og kynnast þessu frábæra fólki sem er að fara að flytja hingað? Ég held að það verði svakalega gott að búa hérna,“ sagði Álfheiður. Það var ekki annað að sjá og heyra á íbúum en að þeim litist mjög vel á ný heimili en þeir munu flytja inn um miðjan næsta mánuð. „Ég er bara mjög spennt!“ sagði til dæmis Glódís Erla Ólafsdóttir, sem er að fara að flytja úr foreldrahúsum í fyrsta skipti og sagðist alveg tilbúin í að taka það skref.

Fyrsta opinbera húsið í Reykjavík sem hefur svansvottun

Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, ávarpaði samkomuna og sagði nokkur orð um húsið. „Þetta hús er mjög merkilegt fyrir þær sakir að það mun hljóta svansvottun. Húsið á að vera heilsusamlegt fyrir ykkur sem munuð búa hér og starfa, og það er líka gott fyrir umhverfið, vegna þess að við erum að draga úr kolefnisspori og það er stefna í framtíðinni að leggja áherslu á það sem er sem umhverfisvænast.“

Félagsbústaðir, sem hafa það hlutverk að hafa umsjón með uppbyggingu og rekstri félagslegs leiguhúsnæðis í Reykjavík, ætla að halda áfram á þeirri braut að byggja vistvæn hús. Félagsbústaðir vinna í nánu samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar sem sér um að meta umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði og úthluta þeim íbúðunum sem lausar eru hverju sinni. Þegar úthlutun hefur farið fram taka Félagsbústaðir við hefðbundnu hlutverki leigusala.

Mikil uppbygging á undanförnum árum

Húsið í Hagaseli var fimmta húsið sem Félagsbústaðir afhentu velferðarsviði á árinu, sem sérstaklega er hannað með þarfir fatlaðs fólks í huga. Undanfarin ár hefur verið gert mikið átak í uppbyggingu á húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Eftir að uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk var samþykkt áirð 2017 hafa 170 einstaklingar fengið húsnæði. Flestir þeirra fengu húsnæði árið 2021, eða alls 55 einstaklingar. Enn frekari uppbygging er í kortunum en nýverið samþykkti borgarráð endurskoðaða uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk. Samkvæmt henni verður Félagsbústöðum falið að byggja tuttugu nýja íbúðakjarna með með tuttugu íbúðum, auk þess að útvega 48 íbúðir þar sem einstaklingar fá þjónustu færanlegs teymis.

nýir starfsmenn
Nýir starfsmenn Félagsbústaða á árinu 2024
Sjálfbærniskýrlsa Félagsbústaða 2023
download
Spennandi og áhugavert starf sviðsstjóra þjónustusviðs hjá Félagsbústöðum er laust til umsóknar
my
Ánægja leigjenda Félagsbústaða með húsnæði og þjónustu eykst milli mælinga
WeAreHiring
Okkur vantar hressan sérfræðing í leigjendamálum
Sambýlið við Hagasel 23
Fyrsta opinbera byggingin sem hlýtur Svaninn
Askur
Veglegur styrkur úr Aski mannvirkjasjóði
Opnun á íbúðaskjarna að Vesturgötu 67
Nýr og glæsilegur íbúðakjarni við Vesturgötu

Að hverju ertu að leita?