Neðangreind grein birtist fyrst í riti um uppbyggingu íbúða í borginni, gefnu út af Reykjavíkurborg í nóvember 2022.
Félagsbústaðir er stærsta leigufélag landsins á almennum íbúða markaði með 3.051 íbúð í útleigu, sem er um 5% íbúðarhúsnæðis í borginni. Tilgangur félagsins er ekki að skila eiganda sínum, Reykjavíkurborg, fjárhagslegum arði heldur bæta almannahag. Það er gert með því að tryggja framboð félagslegs leiguhúsnæðis til þeirra sem þess þurfa.
„Nýjasti íbúðakjarninn okkar, Hagasel, sem var nýverið afhentur til leigu er merkilegur fyrir þær sakir að þetta er fyrsta húsið sem Félagsbústaðir byggja sem hlýtur Svansvottun, ef allt gengur eftir. Húsið er vistvænt. engin eiturefni notuð við bygginguna, og er því heilsusamlegra fyrir fólkið sem býr og starfar þar, auk þess sem verið er að draga úr kolefnisspori,“ segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða en íbúðakjarninn var byggður í samræmi við sjálfbærnistefnu Félagsbústaða.
„Sjálfbærnistefna okkar tekur til félagslegra og umhverfislegra þátta auk stjórnarhátta. Þegar stefnan er skýr verður framkvæmdin betri og við munum halda áfram á þeirri braut að byggja vistvæn hús. Annað húsnæði sem við erum nú með í byggingu, Háteigsvegur 59, mun t.d. hafa helmingi minna kolefnisspor en sambærileg hús. Þannig er sjálfbærni nú í fyrirrúmi í því húsnæði sem við byggjum, auk þess sem við leggjum áherslu á að nota umhverfisvæn efni við að standsetja um 400 íbúðir hjá okkur á ári milli leigjendaskipta,“ segir Grétar Örn Jóhannsson, sviðsstjóri eigna- og viðhaldssviðs Félagsbústaða.
Hringrásarhagkerfið í byggingariðnaði
„Við styðjumst við líftímakostnaðar- og lífsferilsgreiningu með hagkvæmni í efnisvali og umhverfissjónarmið að leiðarljósi á Háteigsvegi. Við viljum stuðla að aukinni vitundarvakningu um hringrásarhagkerfið og efla það. Þá viljum við beita okkur fyrir því að komið verði á fót sameiginlegum vettvangi fyrir endurnýtingu á byggingarefnum,“ segir Grétar því mikilvægt sé að byggingariðnaðurinn dragi úr losun.
„Við höfum verið eftir á í þeim efnum hér á landi en nú horfir til betri vegar. Við höfum til að mynda samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð. Það ber heitið „Byggjum grænni framtíð“ og er vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð til 2030, þar sem sett eru fram markmið og tillögur að aðgerðum sem miða að því að draga úr losun kolefnis,“ bætir Sigrún við.
Félagslegur margbreytileiki auðgar samfélagið
„Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er áhersla lögð á að tryggja félagslegan margbreytileika og fjölbreytni í hverfum borgarinnar og þannig er gert ráð fyrir að 5% alls íbúðarhúsnæðis sé félagslegt leiguhúsnæði. Við vitum að margbreytileiki í íbúasamsetningu hefur margs konar jákvæð áhrif á líf fólks og auðgar samfélagið,“ segir framkvæmdastjórinn og áréttar að húsnæði sem Félagsbústaðir byggja sjálfir sé sérstaklega hannað með þarfir fatlaðs fólks í huga.
„Frá því að uppbyggingaráætlun um húsnæði fyrir fatlað fólk var samþykkt árið 2017 hafa 170 einstaklingar fengið húsnæði. Flestir þeirra fengu húsnæði árið 2021, eða alls 55 einstaklingar,“ segir Sigrún. Hún bætir við að enn frekari uppbygging húsnæðis fyrir þennan hóp sé fram undan því nýverið samþykkti borgarráð endurskoðaða uppbyggingaráætlun þar sem Félagsbústöðum er falið að halda áfram uppbyggingu íbúðakjarna fyrir fatlað fólk næstu árin.