Félagsbústaðir eru í þriðja efsta sæti meðal stærri fyrirtækja á landinu sem hljóta viðurkenningu Creditinfo sem „Framúrskarandi fyrirtæki 2022“. Þetta er sjöunda árið í röð sem félagið hlýtur viðurkenninguna. Á vefsíðu Creditinfo segir að; „Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra.“ Um 2% fyrirtækja í landinu fá að jafnaði þessa viðurkenningu.
Til þess að fá viðurkenninguna framúrskarandi fyrirtæki þarf að uppfylla ýmis skilyrði. Nefna má að rekstrarhagnaður og ársniðurstaða þarf að vera jákvæður sl. 3 ár., eiginfjárhlutfall að lágmarki 20% og eignir að minnsta kosti 100 milljónir síðustu 3 ár.
Á árinu 2021 sem tekið er mið af við matið námu tekjur Félagsbústaða ríflega fimm milljörðum króna, eiginfjárhlutfallið var rúmlega 53% og eignir félagsins rúmlega 126 milljörðum króna en það eru nánast eingöngu félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík en þær eru nú liðlega 3000.
Alls voru 357 íbúðir endurnýjaðar og standsettar vegna leigjendaskipta á árinu 2021 og gerðir voru 472 leigusamningar við nýja leigjendur og leigjendur sem fluttust milli íbúða. Á árinu 2021 fjölgaði íbúðum í eigu Félagsbústaða um 117. Þar af voru fjögur ný 7 til 8 íbúða hús fyrir fatlað fólk.
Við erum stolt af þessum árangri og horfum björtum augum til framtíðar, spennt að sinna okkar mikilvæga hópi viðskiptavina.